sæmilegur

Ekki er óalgengt að orð breyti um merkingu eða fái viðbótarmerkingu við þá sem upphaflega fylgdi orðinu (sjá t.d. frábær). Í fornu máli merkti orðið sæmilegur ‛það sem sómi er að’ enda dregið af nafnorðinu sómi ‛heiður, sæmd’. Í Flateyjarbók stendur t.d.:

Þér hafið þegið af honum áður vingjafir og marga sæmiliga hluti (stafsetningu breytt).
Hann vill og hafa það ríki til forráða, er honum þikki sæmiligt (stafsetningu breytt)

Atviksorðið sæmilega var þá notað um þann hátt sem maður sjálfur eða einhver annar hafði sóma af. Dæmi úr Fornmannasögum er:

Skal eg þá ekki vera móti honum, að konungur geri sæmiliga til hans (stafsetningu breytt)

Þegar komið er fram á 18. öld er farið að nota lýsingarorðið og atviksorðið í víðari merkingu um eitthvað sem er ágætt, gott og helst sú merking vel fram á 20. öld:

Hvörjum þykia síner Sider sæmeleiger. [þ.e. ágætir]
og umræður [eru] allar hóflegri og sæmilegri, en áður. [þ.e. betri]
Frú Sigríður var hin sæmilegasta kona, fríð og sköruleg sýnum. [þ.e. ágætasta)]
Selveidi er hér sæmiliga stundut í þrimr fiórdúngum lanzins. [þ.e. ágætlega]
munu kýrnar þínar [ [...]] þrífast sæmilega. [þ.e. vel]

Í nútímamáli er sæmilegur einkum notað um það sem er þolanlegt, bærilegt og sæmilega í merkingunni ‛nokkurn veginn, þolanlega, viðunanlega’. Dæmi: ,,Jón er orðinn sæmilegur til heilsunnar“, þ.e. við þolanlega heilsu. „Hvernig gekk þér á prófinu?“ ,,Svona sæmilega“, þ.e. þokkalega, þolanlega.

Heimildir:

  • Johan Fritzner. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Ljósprentuð útgáfa. Oslo 1954.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. www.arnastofnun.is.

Guðrún Kvaran
mars 2010

Fleiri orðapistlar