sálarskjól

Snemma á síðustu öld voru fluttir hingað til lands sérstakir treflar frá Noregi. Voru þeir með ermum og gjarnan nefndir herðaskjól. Ekki löngu síðar var farið að framleiða slíka trefla hérlendis hjá fyrirtækinu Álafossi en þó þannig að þeir voru með hálsmáli og unnt að hnýta þá saman í hálsinn. Trefillinn var hafður síðari í bakið og var flíkin nefnd náttermar.

Á árunum milli 1940 og 1950 og jafnvel eitthvað lengur tíðkuðust nátttreyjur sem konur notuðu gjarnan utan yfir náttkjólinn. Þær voru ýmist prjónaðar eða úr taui, oftast stuttar, að mestu aðeins ermar og bak og hnýttar að framan en þó aðeins frábrugðnar treflunum þótt hugmyndin að baki sé hin sama. Þessar nátttreyjur voru nefndar ýmsum nöfnum og fór eftir landshlutum hvaða nafn varð algengast. Nöfnin sem notuð hafa verið á þessa flík eru einum sálarvermir, sálarskjól, náttermar og ermaskjól. Nátttreyjurnar voru bæði framleiddar hérlendis og fluttar inn frá Danmörku en þar nefndust þær sjælevarmer. Danir fengu sitt heiti að láni úr þýsku Seelenwärmer en íslenski sálarvermirinn er fenginn að láni úr dönsku. Hin orðin eru íslenskar nýmyndanir.