samfella

Kvenkynsnafnorðið samfella er haft um ýmislegt sem fellt er eða fellur saman, þ.e. órofna heild af einhverju tagi, t.d.

1. um órofinn tíma, tímabil eða vegalengd:
 • Þá skuli eckert egg taka nockr ár, eg vil meina 10 í samfellu. (LFR IV, 223; 18. öld)
 • um margar þíngmannaleiðir í samfellu sást ekki hæð eðr hóll. (NF XX, 26; 19. öld)
2. um ósundurgreinanlegan massa af einhverju tagi:
 • nema þad [ [...]] hlaupi saman í køck edur þyckva samféllu. (MartEðl, 66; 18. öld)
 • þar sem þröngt er á Seyðisfirði og lítið byggingarpláss og því heppilegt, að geta byggt sem mest í samfellu. (Alþt 1897 (A), 304)
 • Almennt táknar boginn, að þær nótur, sem hann spennir yfir, skuli spila eða syngja „bundið“, þ.e. í samfellu, án þess að slíta sundur. (JÞórStafrtón , 50; 20. öld)
 • fjórvíð samfella rúms og tíma -- Four Dimensional Space Time Continuum. (GísliHFramhnatt , 186; 20. öld)
3. um heystakk (oft í fleirtölu):
 • í miklum rigningum á haustdag sígur samfellan mest í miðjunni. (Ísaf 1879, 102)
 • drepur hey [ [...]] í görðum [ [...]] þar sem eru stórar samfellur. (Ísaf 1879, 102)
 • samfellur, þ.e. tvö upphlaðin hey saman með fullri geil heys á milli. (JPAustant III, 123; 20. öld)
4. um e-ð sem haft er í órofnu samhengi:
 • at úgefa frumrit allra á norrænu ritaðra sögubóka í samfellu. (Fms I, 13 I; 19. öld)
 • Þennan frumherja íslenzkrar lýðskólamenntunar skorti ekki samræmi né samfellu. (SigGuðmNorðl, 227; 20. öld)
 • til þess að gera oss ljóst, hvað samfella (continuity) og ósamfella (discontinuity) eru í raun og veru. (WhitehStærð, 99; 20. öld)
 • birtist býsna glögg og eftir atvikum samfelld saga prestsetra í öllum landshlutum, og eykur það á samfelluna, að ...(Saga 1983, 343)
 • Þetta samvinnuverkefni gengur fyrst og fremst út á það að reyna að skapa ákveðna samfellu í uppeldi og námi barna. (Þjóðlíf 1988 10, 75)
5. um samskeyti, t.d. í smíði:
 • og stálbiki rennt í allar samfellur og rifur á líkkistunum. (SpurnHeil 80; 19. öld)
6. um flíkur sem settar eru saman úr því sem venjulega er meira en ein flík:

(a) um samfesting, flík sem er buxur og treyja eða bolur í einu lagi:
 • Bezt er að hafa ullarnærföt aðskorin, samfellu (peysu og buxur í einu lagi). (Skíðab, 149; 20. öld)
(b) um pilsið sem notað er við faldbúning eða skautbúning en á 18. öld var farið að fella pils og svuntu saman í eina heild. Á faldbúningi er látið marka fyrir svuntunni með bryddingu og útsaumur eða legging á svuntunni er oft íburðarmeiri en á pilsinu. Pilsið sem haft er við skautbúning heldur samfellunafninu þótt bryddingin hverfi.
 • færði [::hann] henni grænt klæði í samfellu, sem hún átti að hafa í brúðarbekknum. (JÁÞj II, 524; 19. öld)
 • Sunnudagabúningur er skautafaldur, treyja borðalögð, silfurbelti og samfella borðalögð að neðanverðu. (LandnIng II, 51 (1852))
 • Þorbjörg átti fagran og merkilegan skautbúning. Samfellan var úr fínasta klæði. (ÞorlJÆv, 207; 20. öld)
 • Önnur breyting [ [...]] var sú, að pilsið og svuntan voru felld saman í eina heild. Varð með þeim hætti til samfellan svonefnda. (EEGuðjÍslþjóð, 32; 20. öld)
(c) um kvenundirflík þar sem brjóstahaldari og nærbuxur mynda eina heild.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók, tölvuútgáfa. Edda - miðlun og útgáfa. 2000.
 • Elsa E. Guðjónsson. Íslenzkir þjóðbúningar kvenna. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík, 1969.