sátt

Kvenkynsorðið sátt er gamalt í hettunni, í fornu máli merkir það jafnan samning eða samkomulag um að binda enda á deilur og ófrið. Það á sér tvíburasystur, sætt, sem raunar er ívið algengara í fornu máli og merkir það sama. Í fornsögum er gjarnan talað um að bjóða sátt þeim sem þykist órétti beittur eða að þeir geri með sér sátt sem áður deildu eða áttu í vígaferlum. Stundum er frá því greint að einhver semji sátt eða segi upp sáttina og er þá greinilega átt við sjálfan samninginn, skilmálana sem sæst er á. Loks er algengt orðalag að deilendur haldi sáttina (vel eða illa) eða rjúfi sátt.

Þá er algengt að orðið sé haft í fleirtölu – bæði að fornu og nýju – og þannig kemur það m.a. fyrir í algengum orðasamböndum eins og að leita sátta og sættast heilum sáttum. Síðastnefnda sambandið er algengt í fornsögum og í Sturlungu er t.d. að finna þetta ágæta dæmi:
  • Eru það mín ráð að vér sættumst heilum sáttum eða verum ósáttir ella
Svipuð notkun orðsins er enn við lýði, í lagamáli heitir það dómsátt þegar menn semja um að jafna ágreining án réttarhalds og víða starfa sáttanefndir og sáttasemjarar sem leggja fram sáttatillögur til að setja niður deilur.

Á síðari öldum er jafnframt farið að nota orðið í almennari merkingu. Þessi notkun birtist m.a. í föstum orðasamböndum eins og í þessum dæmum úr textasafni OH:
  • Við höfðum alla tíð lifað í sátt og samlyndi
  • við spjölluðum saman og hún tók mig í sátt
  • fólk átti að lifa í sátt við náttúruna
Hér merkir sátt einfaldlega 'gott samkomulag', án þess að skírskotað sé beint til deilna eða samninga þeim til lausnar.

Á allra síðustu árum hefur orðið sátt heyrst æ oftar í umræðum um stjórnmál, einkum er algengt að rætt sé um að skapa eða ná sátt um hin og þessi málefni eða stefnu í tilteknum málaflokkum, ekki síst ef um hitamál er að tefla. Snögg leit á veraldarvefnum skilaði þegar í stað á annað hundrað dæmum um orðasambandið að ná sátt. Meirihluti þessara dæma reyndust vera úr ræðum og ritum stjórnmálamanna, einkum alþingismanna, – og voru a.m.k. 8 ráðherrar þeirra á meðal.

Það getur verið erfitt að festa hendur á smávægilegum breytingum sem sífellt verða á merkingu og notkun orða. Meðal þess sem benda má á þegar litið er á þróun nafnorðsins sátt er að í fornu máli setur notkun orðsins deiluaðilana í forgrunn, talað er um að menn geri með sér sátt, bjóði hver öðrum sátt o.s.frv. Sú nútímalega notkun orðsins sem hér hefur verið bent á og er stjórnmálamönnum töm setur hins vegar deiluefnið í brennidepil, þar er oftast talað um að ná sátt um eitthvað án þess að geta þess hverjir það eru sem eiga að sættast. Þetta sést ágætlega á eftirfarandi dæmum, fengnum úr fyrrnefndri leit á Netinu:
  • Það er brýnt að stjórnvöld freisti þess að ná sátt um fyrirhugaðar framkvæmdir
  • Mikilvægt er að sest verði yfir það að ná sátt um skipulag og framkvæmd löggæslumála
  • eru allar líkur á að hægt verði að ná sátt jafnvel um erfiðar ákvarðanir
  • vonaðist ég til að hægt yrði að ná sátt um hvaða leið yrði farin

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Veraldarvefurinn
Aðalsteinn Eyþórsson
maí 2003