17. júní

Þegar 17. júní varð þjóðhátíðardagur eftir lýðveldisstofnunina 1944 fékk dagsetningin nýtt inntak. 17. júní er ekki lengur bara venjuleg dagsetning heldur skírskotar beint til hlutverks dagsins og þeirra hefða sem smám saman hafa myndast í sambandi við hann og þar sem hann hefur ekkert sérstakt nafn hefur dagsetningin orðið ígildi heitis á þessum degi. 17. júní er því sumpart hliðstætt hugtak og ,,Þorláksmessa" eða ,,sumardagurinn fyrsti". Þetta sést m.a. á því að sagt er ,,á 17. júní" alveg eins og ,,á páskadag" - orðalag sem sumir amast við þótt algengt sé - og því að þessi dagsetning er oftar skrifuð fullum stöfum en aðrar: ,,sautjándi júní". Loks má nefna að töluliðurinn er oft notaður sem nafnorð og talað um ,,sautjándann".
  • Hitt húsið hefur sett upp sérstaka vefsíðu í tilefni 17. júní og þar birtist dagskráin í heild sinni. (Mbl. 14. júní, 2002)
  • Hvað verður um allar blöðrurnar sem svífa upp í himininn, til dæmis á 17. júní ? (Mbl. 28. júlí 2001)
  • Lífið í sjálfum miðbænum bærir vart á sér nema um helgar. Þá tekur það hraustlegan kipp rétt undir miðnættið [...] eins og sautjándi júní standi árið um kring. (Mbl. 4. febrúar, 2001)
  • Foreldrarnir, margir sem í leiðslu, reyna að hafa taumhald á afkvæmum sínum og að halda hátíðarandlitinu - það er svo gaman á sautjándanum ! (Mbl. 14. júní, 2000)
Flestir hátíðisdagar eiga sér nafn, hvort sem þeir eru fastbundnir tiltekinni dagsetningu, eins og Þorláksmessa og nýársdagur, eða hræranlegir, eins og sumardagurinn fyrsti og föstudagurinn langi. Þó á 17. júní tvo nafnlausa bræður, hátíðisdag verkalýðsins 1. maí og fullveldisdaginn 1. desember, og haga þær dagsetningar sér á svipaðan hátt.