selbiti

Selbiti er það kallað þegar fingurgómi vísifingurs er tyllt á fingurgóm þumalfingurs og ýtt fram. Þetta er gjarnan gert við einhvern hlut til að skjóta honum áfram. Einnig er þetta gert við fólk og þá fremur í gamni en alvöru og er það kallað að gefa einhverjum selbita. Orðasambandið að gefa selbita er líka notað um það þegar fólk fær áminningu um eitthvað eða sett er ofan í við það. Um orðasambandið eru allmörg dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
 • Auk þess hefi jeg gefið þjer nokkra selbita í andlitið, um leið og jeg hefi sýnt þjer fram á mismuninn milli kenníngar þinnar og breytni. (18. öld)
 • slyngur að gefa heimsku og hjátrú ,,selbita``. (19./20. öld)
 • Það er sitthvað að gefa annmörkum samtíðar sinnar og menningarinar vanköntum selbita og hitt að hata sjálfa menninguna. (20. öld)
 • fór að gánga um gólf hrínginnn í kríng í stofunni gefandi þiljunum selbita. (20. öld)
Um uppruna orðsins selbiti er ekki vitað. Í Íslenskri orðsifjabók segir m.a. að forliður nafnsins sé vísast kominn af orðinu selur og viðliðurinn af biti, en merkingarferlið er óljóst. Elsta dæmið um selbita í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá 17. öld en það yngsta frá 20. öldinni.

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans er að finna orðin fingurhögg og fingurskot yfir selbita, en ekki eru þau í ritmálssafninu.

Nokkur dæmi í ritmálssafninu eru um orðasambandið að gefa selbita í vasa sinn eða slá selbita í vasa sínum. Merking þessa orðtaks er að gera eitthvað sem lítið gagn er að.
 • þar sem þíngmaðurinn kallaði yfirlýsinguna eins þýðíngarlausa, eins og að gefa selbita í vasa sinn. (19. öld)
 • Eg held þetta sé ekki annað, en að slá stjórninni selbita í vasa sínum. (19. öld)
 • Eg vildi með engu móti ráða til þess, að vér skulum slá selbita í vösunum, ef eg mætti svo segja, með því að reyna að koma málinu fram til endalyktar á þíngunum. (19. öld)
 • enda mun margur efast um, að það sje annað en selbiti í vasann. (19. öld)

Heimildir
 • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
 • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. 2002. Ritstj. Mörður Árnason. Edda hf, Reykjavík.

 Ólöf Margrét Snorradóttir
október 2003