sigtimjöl

Orðið sigtimjöl er tökuorð úr dönsku og er notað um fínmalað mjöl en af heimildum virðist nokkuð á reiki úr hvaða korntegundum mjölið er unnið. Nú um stundir virðast bakarar hér á landi einkum nota orðið um blöndu af möluðu rúgmjöli, þar sem dekksti hluti mjölsins hefur verið sigtaður frá, og fínmöluðu hveiti, t.d. í hlutföllunum 75% rúgur og 25% hveiti. Þetta sigtimjöl er notað í hálfgróf brauð, þétt og þung. Normalbrauð er stundum bakað úr sigtimjöli en þó getur það eins verið úr hreinum rúgi, þ.e. rúgsigtimjöli. Þá er orðið sigtimjöl stundum einnig haft um rúgsigtimjöl.

Í heimildum Orðabókar Háskólans eru engin dæmi um orðið sigtimjöl, hvorki úr rituðu máli né talmáli. Þar eru hins vegar nokkur dæmi um orðið sigtibrauð. Notkun þess orðs virðist vera nokkuð á reiki, rétt eins og notkun orðsins sigtimjöl. Stundum virðast orðin normalbrauð og sigtibrauð notuð um sama brauðið en á einum seðli í ritmálssafni Orðabókarinnar virðist vera gerður sams konar greinarmunur á sigtibrauði og normalbrauði og gerður er á sigtimjöli og rúgsigtimjöli:
  • Ofanskráð mjölverð [...] sje lagt til grundvallar verðlagi á matbrauði (rúgbrauði, normalbrauði, franskbrauði, sigtibrauði) (Alþingistíðindi 1917)
Þá er einn seðill í talmálssafni þar sem segir að sigtibrauð sé hveitibrauð:
  • ,,Um brauð úr hveiti. Hveitibrauð seinni tíma orð.``(Heimildarmaður úr Vestur-Ísafjarðarsýslu).
Orðabókin hefur fengið fyrirspurnir um enska þýðingu á orðinu sigtimjöl en þeim er erfitt að svara þar sem merkingin er á reiki. Um blandað sigtimjöl mætti þó sennilega nota `bolted flour' og e.t.v. `bolted rye' um rúgsigtimjöl.

Heimildir
  • Dahlerup, Verner. 1939. Ordbog over det danske sprog, Gyldendalske Boghandel, København.
  • Ragnheiður Héðinsdóttir. Samtal í júlí 2000.
  • Vinterberg, Hermann, og C. A. Bodelsen. 1956. Dansk-engelsk ordbog, Gyldendalske Boghandel, København.