skarbítur

Skarbítur er tæki eða áhald til að klippa kveik á kerti (eða olíulampa). Á seðli í talmálssafni Orðabókarinnar er þessum grip lýst svo:

mjög stutt skæri, álíka kjaftlöng og síðubit en með skæralögun en blöð í skáhallri stefnu við handföng og notuð til að klippa til og jafna kveiki í olíulampa. ...svo nýrri skarbítinn sem voru 2 hringpípur, sú mjórri innan í, með skáskera á milli.

Heimildarmaður er úr Fnjóskadal og er seðillinn dagsettur 8. janúar 1989. Elsta dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar er frá 1758:
 • Item Ljosbere af Bliche og horne galladur og Skarbitur af Jarne. (Bps. AII, 21, 37.).
Talsvert mörg önnur orð um þennan grip er að finna í fórum Orðabókarinnar:

kertaklofi (kk)
Orðið kertaklofi er gamalt í málinu og segja Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson (1992) orðið koma fyrir í heimild frá 1318. Lýsing þeirra á áhaldinu er á þess leið:

Kertaklofi, skarklofi, skarbítur, ljósasöx voru nöfn á áhaldi, sem notað var til að skara kertin og var líkt skærum í laginu með klofakjaft á enda. Til eru nokkrir skarklofar á Þjóðminjasafni og telur Matthías Þórðarson einn þeirra vera frá miðöldum.
(Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson. 1992, bls. 36.)

Elsta dæmi í ritmálssafni er frá 1662 og orðið er einnig að finna í orðalista Árnanefndar í Kaupmannahöfn um orðaforðann í fornmálsorðabókinni sem þar er unnið að, Ordbog over det norrøne prosasprog.

kertasöx (hk ft)
Í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (18. öld) er að finna orðið kertasöx, sömu merkingar og orðið ljósasöx. Orðið kertasöx finnst hvorki í ritmálssafni né talmálssafni Orðabókarinnar.

ljósasöx (hk ft)
Nokkur dæmi eru í ritmálssafni Orðabókarinnar um orðið ljósasöx og það er einnig að finna í talmálssafni. Elsta dæmið í ritmálssafni er úr Guðbrandsbiblíu:
 • Þu skallt og giøra ...Liosaxøx og skaraklofa Liosen ad sløckua. (2Mós. 25,38 (GÞ))
Á seðli í ritmálssafni úr kennslubók Jóns Ólafssonar ritstjóra (1883) kemur fram ensk þýðing á orðinu, þ.e. `snuffers'. Í Íslenskri orðabók (2002) er skýringin á orðinu ljósasöx á þessa leið: ,,tæki til að klippa skar ofan af kertiskveik, skarbítur``.

ljósaskæri (hk ft)
Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið ljósaskæri samheiti við ljósasöx. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er elsta dæmi úr Guðbrandsbiblíu:
 • hia þeim tueimr gylltum Liosa skiærum, med huerium ad Menn taka Skøren af þeim Gylltu Lømpunum. (Sak.H,12 (GÞ))
ljósskæri (hk ft)
Á seðli í talmálssafni Orðabókarinnar er eftirfarandi skýringu að finna á orðinu ljósskæri:

Ljósskæri voru raunar ekki skæri. Þar sem ég sá þetta voru þetta 2 flöt blöð sem komu saman svipað og á frímerkjatöng og þau voru klemmd utan um kertisrakið eða tírukveikinn svo [að] ljósið drapst.

Heimildarmaður er úr Fnjóskadal og seðillinn er dagsettur 8. janúar 1989. Orðið ljósskæri er ekki í ritmálssafni.

skaraskæri
Í talmálssafni Orðabókarinnar er orðið skaraskæri gefið sem samheiti við ljósasöx. Heimildarmaður er úr Strandasýslu (1989). Orðið er skaraskæri ekki í ritmálssafni.

skarhús (hk)
Í Íslenskri orðabók (2002) hljóðar skýringin við orðið skarhús á þessa leið: ,,e.k. hólf á efra armi skarbíts sem skarið fer í þegar það er klippt af kertinu``. Orðið er einnig að finna í Blöndalsorðabók, í ritmálssafni Orðabókarinnar (elsta dæmi frá síðari hluta 19. aldar) og í talmálssafni. Á seðli í talmálssafni er skarhús gefið sem samheiti við orðið skarhjálmur.

skari (kk)
Í Íslenskri orðabók (2002) er 3. merkarliður í orðinu skari ,,skarbítur`` og er liðurinn fornmerktur. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er eitt dæmi um þessa merkingu orðsins skari:
 • En skarar (ljósasöx, skarbítur) munu nokkrir hafa verið smíðaðir hér úr messingu og kopar. (IðnsÍslII, 288 (20. öld))
skarklofi (kk)
Orðið skarklofi er gamalt í málinu og er það að finna í orðalista Árnanefndar í Kaupmannahöfn um orðaforðann í fornmálsorðabókinni sem þar er unnið að, Ordbog over det norrøne prosasprog. Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson (1992:36) nefna þetta orð í sömu andrá og kertaklofa (sjá þar), skarbít og ljósasax. Elsta dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar er í úr Íslenska fornbréfasafninu (1542):
 • Item xj huita fyrir skarklofa. (DI XI 153).
Merkingarliðir í Íslenskri orðabók (2002) eru tveir og sá síðari þeirra er ,,skarbítur``. Orðið er einnig notað í merkingunni ,,haldóra, klofi til að halda saman skipsborðum (við smíðar)``.

skarskeri (kk)
Í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (18. öld) er orðsins skarskeri getið við orðið ljósasöx:

Ljoosa söx ...posset non minus recte vocari skar-skeri, qvia proprie fungum abscindit, non candelam vel lumen ipsum.

Orðið skarskeri er ekki í ritmálssafni Orðabókarinnar.

Heimildir
 • Björn Halldórsson. 1992. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. Ný útgáfa, Jón Aðalsteinn Jónsson sá um útgáfuna. Orðabók Háskólans, Reykjavík. [1. útg. 1814.]
 • Íslensk orðabók, 3. útgáfa. Edda, 2002.
 • Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson. 1992. Skálholt. Skrúði og áhöld. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Sigfús Blöndal. 1920-1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.