skarhjálmur

Í talmálssafni Orðabókarinnar eru nokkrir seðlar um orðið en það er ekki að finna í ritmálssafni Orðabókarinnar né í þeim heimildum öðrum sem leitað var í.
Talsvert mörg önnur orð um þennan grip er að finna í fórum Orðabókarinnar:
ádrepa (kvk)
Orðið ádrepa í merkingunni ‘skarhjálmur’ finnst í talmálssafni Orðabókarinnar og er heimildarmaður úr Vestur-Skaftafellssýslu. Þessi merking orðsins er hvorki í ritmálssafni Orðabókarinnar né í prentuðum orðabókum.
kertalok (hk)
Heimildarmaður Orðabókarinnar á höfuðborgarsvæðinu (des. 1989) nefnir orðin kertalok og ljóslok sem samheiti fyrir kertaslökkvara. Orðið kertalok er ekki í ritmálssafni.
kertaslökkvari (kk)
Orðið kertaslökkvari finnst í öllum heimildum sem hér var leitað í. Í Íslenskri orðabók (2002) er gefin skýringin „ljóskæfa, tæki til að slökkva á kerti“. Dæmi um orðið finnast bæði í ritmálssafni og talmálssafni Orðabókarinnar.
ljósadrepur eða ljósdrepur (kk)
Einn heimildarmaður Orðabókarinnar á höfuðborgarsvæðinu (1989) nefnir orðin ljósadrepur og ljósdrepur um kertaslökkvara. Hvorugt orðið er í ritmálssafni.
ljósakæfa (kvk)
Einn heimildarmaður Orðabókarinnar úr Strandasýslu (1989) nefnir orðið ljósakæfa um skarhjálm. Í ritmálssafni Orðabókarinnar er eitt dæmi um orðið frá síðari hluta 19. aldar en þar virðist merkingin vera önnur:
- með slökkvidælur, stiga og ljósakæfur. (2.Ið.III.3i)
Orðið ljósaslökkvari er gamalt í málinu. Elsta dæmi í ritmálssafni er úr Þorláksbiblíu (1637-1644):
- Þu skallt giøra ... Liosasøx og Liosa Sløckuarann [skaraklofa Liosen ad sløckua ...]. (2Mós. 25,38)
Í Íslenskri orðabók (2002) er skýringin við orðið ljóskæfa „kertaslökkvari, tæki til að slökkva ... kertisljós (e.k. málmhetta á stöng)“.
Í ritmálssafni er orðið stakdæmi úr bókinni Skálholt. Skrúði og áhöld (Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson 1992) en þaðan er orðið komið úr afhendingar- og úttektarbókum Skálholtsstóls 1698 (Bps. A, VII, 3.).
ljóskæfir (kk)
Einn heimildarmaður Orðabókarinnar úr Vestur-Skaftafellssýslu nefnir orðið ljóskæfir um þetta áhald. Orðið er ekki í ritmálssafni.
ljóslok (hk)
Heimildarmaður Orðabókarinnar á höfuðborgarsvæðinu (des. 1989) nefnir orðin ljóslok og kertalok sem samheiti fyrir kertaslökkvara. Orðið ljóslok er ekki í ritmálssafni.
ljósslökkvari (kk)
Í ritmálssafni Orðabókarinnar eru tveir samhljóða seðlar frá fyrri hluta 18. aldar um orðið ljósslökkvari:
- litill liosslockvare giefinn af dónskumm. (Bps.AII,1498v. (1701))
Einn heimildarmaður Orðabókarinnar úr Vestur-Skaftafellssýslu nefnir orðin logakæfa og logakæfir um kertaslökkvara. Orðin eru ekki í ritmálssafni.
skarhús (hk)
Í talmálssafni Orðabókarinnar er einn seðill þar sem skarhús er sagt vera sami hlutur og skarhjálmur. Í Íslenskri orðabók (2002) er skarhús hins vegar sagt vera „e.k. hólf á efra armi skarbíts sem skarið fer í þegar það er klippt af kertinu“. Þessu ber saman við Blöndalsorðabók. Í ritmálssafni er stakur seðill frá síðari hluta 19. aldar en af honum verður ekki ráðið við hvorn hlutinn er átt.
Heimildir
- Björn Halldórsson. 1992. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. Ný útgáfa, Jón Aðalsteinn Jónsson sá um útgáfuna. Orðabók Háskólans, Reykjavík. [1. útg. 1814.]
- Íslensk orðabók, 3. útgáfa. Edda, 2002.
- Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson. 1992. Skálholt. Skrúði og áhöld. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
- Sigfús Blöndal. 1920-1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
- Talmálssafn Orðabókar Háskólans.
Kristín Bjarnadóttir
desember 2002
desember 2002