skjáhrafn

Orðið skjáhrafn merkir samkvæmt Íslenskri orðabók (2002) annars vegar 'hrafn á skjá, hrafn sem sækir á glugga hjá fólki' en hins vegar 'forvitinn og framur maður'.

Ekki kemur orðabókarskýringin alveg heim og saman við dæmi í talmálssafni Orðabókar Háskólans. Á Austurlandi er orðið notað í merkingunni 'maður sem er seinn til verka'. Af Vestfjörðum eru heimildir um merkinguna 'maður sem fer snemma upp á morgnana'. Á Suður- og Vesturlandi þekkist merkingin 'maður sem er óstöðugur, laus við verk, hleypur úr einu í annað'. Í Skagafirði þekkist merkingin 'óáreiðanlegur maður og ágengur' og í Húnavatnssýslu þekkist merkingin 'maður sem er háðfugl og eftirherma en hefur efni á hvorugu'. Sumir Norðlendingar nota skjáhrafn alls ekki í neikvæðri merkingu heldur um þann sem er grallaraspói, fjörkálfur. Engin þessara heimilda er samhljóða skýringunni í Íslenskri orðabók og virðist merking nokkuð á reiki.

Dæmi í ritmálssafni um skjáhrafn eru ekki mörg en í þeim öllum virðist orðið vera notað í neikvæðri merkingu þótt ekki komi skýrt fram hver hún er. Hér eru tvo sýnishorn:
  • lét þær innantökur aldrei við þá skilja, að þeir sem skrækjandi skjáhrafnar krunki kostgæfilega framan í sína tilheyrendur.
  • Svona er langbezt að stinga upp í þessa skjáhrafna, þegar þeir eru að krúnka yfir manni.
Annað orð þessu skylt er skjákrummi. Í Íslenskri orðabók er það sagt merkja 'oflátungslegur, alvörulítill maður'. Í söfnum Orðabókarinnar er þessi merking einnig til og sömuleiðis merkingin 'forvitinn maður'. Sögnin að skjákrummast er í Íslenskri orðabók sögð merkja 'að kankast á' en í talmálssafni Orðabókarinnar kemur einnig fram merkingin 'forvitnast'. Lýsingarorðið skjákrummalegur er notað um þann sem vokir og hlakkar yfir einhverju'.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Íslensk orðabók. 2002. Edda, Reykjavík.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.