skjuð

Nafnorðið skjuð er haft um skáskorið, rykkt, fellt eða hringskorið stykki neðan á flík sem sett er saman í mittið, t.d. á jakka eða blússu. Orðið skjuð er einnig haft um þann hluta upphluts sem gengur niður í pilsið. Upphlutsskjuð gátu áður fyrr verið nokkuð efnismikil og sniðið á þeim var þá með ýmsu móti en í seinni tíð eru þau yfirleitt höfð úr þunnu svörtu fóðurefni og felld undir strenginn.

Orðið skjuð er tökuorð úr dönsku, skød sem í eldra máli var ritað skiød eða skjød og hefur m.a. sömu merkingu og íslenska tökuorðið. Orðið er skylt íslenska orðinu skaut samkvæmt Íslenskri orðsifjabók (sjá bls. 833).

Engin dæmi eru um orðið í ritmálssafni Orðabókarinnar og það finnst hvorki í Blöndalsorðabók né í Íslenskri orðabók (2002). Orðið er heldur ekki að finna Íslenskri orðsifjabók og ekki tókst að finna orðið í gömlum heimildum um fatasaum þar sem sagt er frá fyrirbærinu án þess að orðið sjálft sé notað. Orðið virðist því vera dæmigert talmálsorð en í talmálssafni Orðabókarinnar eru þrettán seðlar um það, flestir frá útmánuðum árið 1983 og er í þeim vísað í eldri tísku:
  • Skjuð var hringsniðið eða skásniðið stykki á flík. Móðir mín átti t.d. reiðföt sem þá voru í tísku, sítt reiðpils og jakki við. Á honum var svokallað skjuð, sem var saumað við peysuna í mittið.
  • Kjólar með skjuði sem ég man eftir frá svipuðum tíma (þ.e. um 1940) voru m.a. tvískiptur kjóll, pils og jakki. Jakkinn var aðskorinn, hnepptur að framan og náði nokkuð niður fyrir mitti. Parturinn sem náði niður að framan var rúnnaður.
  • Skjuð á kjól eða blússu er fremur mjó venjulega skásniðin lengja, sem er saumuð í mittissauminn, en leggst utan á pilsið að framan og aftan, oftast heil að aftan .... Sé lengjan skásniðin liggur hún í léttum follum --- fellingum. Sé hún sniðin úr beinni pjötlu liggur hún slétt niður á pilsið.
Ein samsetning er af orðinu í talmálssafni frá sama tíma og aðrir seðlar um orðið skjuð:
  • Skjuðkjólar þóttu fara grönnum konum vel, en þær þreknu urðu oft heldur balbumbulegar í þessum klæðnaði.

Heimildir
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Dahlerup, Verner. 1929. Ordbog over det danske sprog. Det danske sprog- og litteraturselskab, København.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.