skodda

Í Íslenskri orðabók (2002:1339) er merkingin stb. við kvenkynsorðið skodda og reyndar einnig við karlkynsorðið skoddi. Úr merkingunni á að lesa ,,staðbundið málfar“ en með því er átt við að orðið þekkist ekki um allt land heldur á takmörkuðu svæði sem getur verið misstórt eftir atvikum.

Ef fyrst er litið að skoddu hefur orðið samkvæmt Íslenskri orðabók fleiri en eina merkingu, þ.e. 1. þoka, móska í lofti, 2. þungbúið loft, með lágum úrkomuskýjum, 3. skúr, regnhryðja, pos, geyfa’. Tvær síðustu merkingarnar eiga einkum við snjókomu. Ef nú er litið í safn Orðabókar Háskólans úr rituðu máli (Ritmálssafnið) er þar að finna heimild sem vísar beint til Austfjarða:

Skodda er þekkt á Austfjörðum í sömu veru og þoka.

Í Ritmálssafninu er líka að finna orðið skoddudimma, sem málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask skrifaði hjá sér á ferð um Austurland 1815 sem skýringu við orðið skodda. Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn, gaf orðasafn Rasks síðar út. Í Ritmálssafni er einnig heimild um lýsingarorðið skoddubjartur úr þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Þessar fáu heimildir úr Ritmálssafninu benda allar til Austurlands. Engar heimildir fundust þar um karlkynsorðið skoddi en við það gefur Íslensk orðabók merkinguna ‛sæþoka’.

Ef flett er í safni stofnunarinnar úr talmáli koma frekari heimildir í ljós og ljóst er að spurst hefur verið fyrir um skoddu. Orðið virðist fyrst og fremst notað í Múlasýslum og Skaftafellssýslum. Flestar heimildanna úr Skaftafellssýslum benda til að orðið sé notað um regnskúr sem er kröftug en stendur oftast stutt, hellidembu. Dæmin úr Múlasýslum eru flest um merkinguna ‛stormur með hríðaréli, snjó- eða slydduél með allmikilli veðurhæð’. Einn heimildarmanna lýsti veðrinu þannig: „Skoddan stendur lengur en svo að hægt sé að kalla það él, en ekki svo lengi að menn telji rétt að tala um byl, hríð eða stórhríð“. Aðeins er minnst á merkinguna ‛þoka’ á einum seðli úr Vestur-Skaftafellssýslu en þar stendur: „Lítið þekkt um þoku“.

Dæmi eru í talmálssafninu um lýsingarorðið skoddaður af Austurlandi. Þá er talað um að ,,hann sé skoddaður í lofti“ þegar flókar eða þykknisský þykja fyrirboðar úrfellis og storms.

Um karlkynsorðið skoddi fannst engin heimild í safninu en aftur á móti um nafnorðið skoddabirta úr Austur-Húnavatnssýslu og sömuleiðis lýsingarorðið skoddabjartur. Það er sagt notað þegar tungl veður í skýjum svo að af verður fölsk birta. Heimildarmaður á Héraði lýsir merkingu lýsingarorðsins á annan veg og segir það notað: „um mugguveður, hríðarmuggu eða þoku“. Þessi dæmi styðja það að karlkynsorðið skoddi þekkist eða hafi þekkst þótt dæmi hafi ekki komið fram enn sem komið er.

Heimildir:

  • Jón Helgason. 1960. Fem islandske ordsamlinger fra 18. og 19. århundrede. Bibliotheca Arnamagnæana. Vol. XX (Opuscula I). København, Munksgaard. (Safn Rasks er prentað á blaðsíðum 290–299).
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans

Guðrún Kvaran
júní 2010

Fleiri orðapistlar