skopparakringla

Orðið skopparakringla þekkist um leikfang frá því um miðja 17. öld og er enn notað. Í Íslenskri orðabók (2002) er merkingu orðsins lýst svona: ,,leikfang, kringla á standi sem hoppar um leið og hún snýst, topar".

Fyrri liðurinn er að sjálfsögðu skyldur sögninni að skoppa 'hoppa, snúast'. Til hefur verið að kalla leikfangið skopp en það hefur ekki verið algengt. Til er þessi vísa um skopparakringluna í leikjaritgerð Ólafs Davíðssonar (1888-1892:342):

Eg hrekst eins og annar skoppur
er sér börn að leika,
knöttur eða trítiltoppur,
trítla kann og reika.

Algeng nöfn á skopparakringlu eru spunakona, sem er sama og í dönsku spindekone, spunakerling og snarkringla.

En skopparakringlan á sér mörg fleiri nöfn, flest gömul og lítið notuð. Eitt þeirra er topar sem nefnt var í orðabókinni. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um það er úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld og kemur fram í skýringargreininni, sem er á latínu, að um skopparakringlu sé að ræða. Frá 18. öld er einnig latnesk-íslensk orðabók, samin af Jóni Árnasyni biskupi, en hann nefnir leikfangið rennitopar. Við eftirgrennslan um orðið kom í ljós að topar, og hliðarmynd þess topra, þekkjast einkum á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Topar og topra eru skyld danska orðinu top sem m.a. merkir 'skopparakringla'.

Annað orð um skopparakringlu er trítill. Elsta dæmi um það er einnig úr latnesk-íslensku orðabókinni sem skýring á trochus annars vegar og turbo hins vegar. Jón úr Grunnavík nefnir það líka og í leikjaritgerð Ólafs Davíðssonar (1888-1892: 342) kemur fram að skopparakringlan er einnig nefnd trítiltoppur. Orðið trítill er skylt no. trítill 'smávaxinn maður', sögninni að tríta 'flýta sér, snúast' og trítla 'ganga smáum skrefum'.

Enn eitt orð um skopparakringlu er skotra sem elst dæmi eru um frá 18. öld. Eftirgrennslan sýndi að orðið er notað enn þótt ekki sé það algengt. Það virðist ekki staðbundið þar sem heimildir fengust úr öllum landshlutum.

Að lokum má nefna að skopparakringlan er einnig nefnd skopra. Elstu dæmi Orðabókarinnar eru úr auglýsingum í blöðum frá árinu 1900 en þar eru skoprur nefndar meðal leikfanga sem nýkomin voru til landsins.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Íslensk orðabók. 2002. Edda, Reykjavík.
  • Ólafur Davíðsson. 1888-1892. II. Skemtanir. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. I-IV. Kaupmannahöfn 1887-1903.
  • Jón Árnason. 1738. Nucleus latinitatis. Hafniæ. (Endurútgefin af Orðabók Háskólans 1994).