skraddaralús

Hér áður fyrr var algengara en nú að leita til skraddarans um saum á jakkafötum og frökkum. Oft kom fyrir að á flíkinni sat eftir spotti, einkum eftir þræðingar, sem kallaður var skaddaralús. Síðar var farið að nota orðið almennt um þráðarspotta sem loðir við flík. Orðið er fengið að láni úr dönsku skrædderlus sem samkvæmt sögulegu dönsku orðabókinni (Ordbog over det danske sprog) er einkum notað um kusk sem safnast vill fyrir í vösum á flíkum. Ekki virðist það þó algengt í nútímadönsku þar sem það er ekki tekið með í nýlega dansk-danska orðabók, Den danske ordbog.

Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er aðeins eitt dæmi um orðið og er það úr Brekkukotsannál Halldórs Laxness (1957:230):

Hann tók upp frakkann sinn og þrautskoðaði hann innan og utan og tíndi gaumgæfilega úr honum skraddaralúsina.

Spurst var fyrir um orðið fyrir um það bil aldarfjórðungi í þáttum ríkisútvarpsins um íslenskt mál og fengust fáein svör um þá merkingu sem þegar er komin fram. Fleiri nefndu þó orðið saumakonulús um enda sem loða við föt saumakonunnar. Á einum seðli stendur t.d.:

Kona, sem stendur upp frá saumum og er öll í spottum, gæti einnig komizt svo að orði, að hún væri öll í saumakonulús.

Ekkert dæmi var aftur á móti um orðið í ritmálssafninu og virðist það því fyrst og fremst notað í talmáli.

Eins er með saumakonulúsina og skraddaralúsina að notkunin varð almennari og orðið er notað um spotta, oftast ljósan á dökkri flík, hjá öðrum en saumakonunni. Ekki virðist fyrirmynd um það í dönsku og hefur saumakonulúsin líklegast orðið til með skraddaralús að fyrirmynd.

Orðið skraddari hefur verið notað í málinu a.m.k. frá 16. öld. Það þekkist einnig í dönsku sem skrædder og sænsku sem skräddare. Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:857) telur orðin tökuorð úr miðlágþýsku schräder, en hugsanlega hefur íslenska orðið verið tekið að láni beint úr dönsku.

Búast mætti við að orðið skraddaraþankar í merkingunni ‛leikmannshugleiðingar’ væri einnig fengið að láni úr dönsku en það finnst í hvorugu þeirra dönsku verka sem nefnd hafa verið. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er aðeins eitt dæmi úr tímaritinu Helgafelli (1942:230):

Augljósustu veilurnar í frásögn höf. eru tvær, að hann gerir allt of mikið að því að koma að alls konar skraddaraþönkum frá sjálfum sér, sem fremur sjaldan hitta naglann á höfuðið, hvort sem þeir eru bornir fram í gamni eða alvöru …“

Orðið hefur einnig ratað inn í Íslenska orðabók (2002:1348) en ekki fannst heimild um það í talmálssafninu.

Heimildir:

Guðrún Kvaran
Maí 2010