smjörlíki

Orðið smjörlíki virðist fyrst koma fyrir á prenti 1889 þegar Jón Ólafsson ritstjóri notaði það í frétt um þingmálafund Borgfirðinga í blaði sínu Ísafold 15. júní það ár.

Áður var talað um óekta smjör eða margarín. Í Ísafold er t.d. rætt nokkrum sinnum um óekta smjör á árunum 1886-1897 og blaðið notar orðasambandið m.a. sem skýringu á orðinu margarin sem reyndar er haft innan gæsalappa 1887.
  • Óekta smjör. Það er orðið algengt í verzlunum hjer á landi.
  • hinu óekta smjöri, sem hingað flyzt.
  • óekta smjör var fyrst til búið á Frakklandi á árunum 1866-67.
  • ,,margarin" (þ.e. óekta smjör).
Í greininni í Ísafold 1889 þar sem smjörlíki er fyrst notað er orðið margarín í sviga og gæsalöppum fyrir aftan orðið smjörlíki til skýringar í fyrra dæminu, en skýringunni er sleppt í hinu síðara.
  • Vildi tolla hátt smjörlíki (,,margarín").
  • Um aðflutningsgjald á smjörlíki.
Eftir þetta er orðið smjörlíki notað skýringarlaust en margarín var notað á prenti vel fram á síðustu öld og heyrist enn í máli eldra fólks. Ekki voru menn í fyrstu hrifnir af þessu innflutta viðbiti. Í Búnaðarblaðinu Frey má t.d lesa 1904 og 1906:
  • ,,Ja ekki er nú alt gott hjá danskinum" sagði karlinn hérna um árið þegar hann var að borða gulgræna olíubræðinginn sem farinn var að flytjast hingað, og kallaður var ,,danskt smjör" en nú er kallað smjörlíki.
  • Alþýða manna hér á landi hefir ógeð á smjörlíki, álítur að það sé búið til úr feiti af sjálfdauðum skepnum og öðrum óþverra.
Dæmi um orðalagið danskt smjör eru þekkt frá lokum 19. aldar. Í Ísafold 1886 kemur fram að óekta smjör sé kallað danskt smjör og ári síðar finnur blaðið að því að smjörlíkið sé nefnt danskt smjör, það sé ekkert smjör. Yngri dæmi á Orðabókin ekki en allt fram til dagsins í dag er til eldra fólk sem gerir mun á dönsku smjöri, þ.e. smjörlíki, og íslensku smjöri, þ.e. hreinu smjöri.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH