sóknarfæri

Nafnorðið sóknarfæri hefur notið nokkurrar hylli upp á síðkastið, ekki síst í opinberri umræðu um stjórnmál og viðskipti. Orðið er einkum haft um aðstæður sem þykja gefa einhverjum kost á að ná góðum árangri, auka umsvif eða hefja nýja og vænlega starfsemi. Hér eru nokkur dæmi af Netinu:
 • Reiðhöll er kjörið sóknarfæri fyrir ferðamannaiðnaðinn
 • Alþjóðavæðing viðskiptalífsins er stórkostlegt sóknarfæri
 • Sjáanleg sóknarfæri eru því vissulega í ræktun íslenskra jólatrjáa
 • framsækni einstaklinganna ... skapar óteljandi sóknarfæri
 • Árangurinn gefur flokknum sóknarfæri í kjördæminu
Þegar litið er yfir dæmi sem finnast á Netinu vekur það athygli hve orðið kemur oft fyrir í fyrirsögnum, slagorðum og yfirskriftum ýmisskonar. Þetta gæti bent til þess að sóknarfæri þyki jákvætt orð sem beri með sér andblæ bjartsýni, stórhugar og athafnaþrár en slíkt er mikils metið nú á dögum.

Þessi notkun orðsins, þar sem það táknar almenna möguleika á bjartri framtíð, virðist nýleg, ekki fundust eldri dæmi en frá 1989. Hins vegar á orðið sér talsvert lengri sögu í máli skákmanna en þar merkir það 'tækifæri til að sækja að andstæðingnum'. Hér koma nokkur dæmi um sóknarfæri í skákskýringum:
 • Finninn ... fórnaði fyrst peði og síðan hrók fyrir sóknarfæri
 • Sigurður Páll hefur hættuleg sóknarfæri með svörtu mönnunum
 • hefur Allan yfirsézt að hann tapar manni ... Hann reynir því að ná sóknarfærum með því að gefa manninn á annan hátt
Líklegt er að þetta orðalag úr skákmáli hafi síðar verið yfirfært á almennara svið en um slíkt eru mörg önnur dæmi, minna má á algeng orðtök eins og:
 • e-ð bætir ekki úr skák
 • tefla á tvær hættur
 • hafa brögð í tafli
 • standast ekki mátið
Loks er þess að geta að elsta dæmi Orðabókarinnar um sóknarfæri er úr heimild frá fyrri hluta 18. aldar en þar merkir orðið 'hákarlaveiðarfæri'. Þar segir:
 • Hákallar takast hjer oftast á sóknir, og tekur skipeigandinn hlut eftir þær og sóknarfærin og stjórafærin, og einn hlut eftir skipið.
Sókn er hér í merkingunni 'hákarlasókn, stór öngull til að veiða hákarl á' og sóknarfærið er þá líklega færið eða vaðurinn sem sóknin er fest á.

Ef það er rétt ályktað að orðið sóknarfæri hafi nú á dögum á sér jákvæðan bjartsýnisblæ sem stjórnmálamenn og viðskiptafrömuðir reyna að nýta sér, má segja sem svo að gamla veiðarfærismerkingin sé farin að láta á sér kræla á ný. Nú er það bara orðið sjálft en ekki merking þess sem gegnir hlutverki veiðarfæris – og í stað hákarlsins eru komnir kjósendur, fjárfestar og aðrir viðskiptavinir.

Heimildir
 • Söfn Orðabókar Háskólans
 • Gagnasafn Morgunblaðsins. www.mbl.is/gagnasafn
 • Veraldarvefurinn
Aðalsteinn Eyþórsson
febrúar 2004