sólstöður

Kvenkynsorðið sólstöður þekkist þegar í fornu máli og sama er að segja um hvorugkynsorðið sólhvörf í sömu merkingu. Í ritinu Stjórn, gamalli biblíuþýðingu frá 14. öld, segir t.d. um sólstöður:

sólin gengr þann tíma upp ok aukast hennar gangr eptir þá sólstöðuna sem á vetrinn verðr, en þeir sem Arabiam byggja, byrja sína áratölu eptir hina sólstöðuna, sem á sumarit verðr.

Og í Hauksbók stendur um sólhvörf:

á þeim degi, er 10 nætr ero til jónsmesso, þá ero sólhvörf, er sól er í miðju landsuðri, en um vetrinn eptir at miðri nátt 10 dögum firir jólanótt.

Í orðabók Björns Halldórssonar, sem gefin var út 1814, eru bæði orðin sögð merkja hið sama. Þau eru skýrð með latneska orðinu 'solstitium' og danska orðinu 'Solhverv'.

Í síðari tíma máli hafa orðin einnig sömu merkingu. Í bókinni Stjörnufræði-Rímfræði (1972:71), eru sólstöður og sólhvörf sögð eitt og hið sama og skýringin er:

sú stund, þegar sól kemst lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, á tímabilinu 20.-22. júní 20.-23. desember. Um sumarsólstöður er sólargangurinn lengstur, en um vetrarsólstöður stytztur ... Nafnið sólstöður mun vísa til þess að sólin stendur kyrr, þ.e. hættir að hækka eða lækka á lofti.

Þótt þetta sé algengasta skýring á sólstöðum og sólhvörfum er notkunin í talmáli nokkuð á reiki. Í fyrirspurn í þættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu kom fram að margt eldra fólk notar sólstöður aðeins þegar sól er hæst á sumri en telja að sólhvörf sé hægt að nota um sólargang bæði að sumri og vetri. Sumir vilja jafnvel greina að sumarsólstöður og vetrarsólhvörf. Ekki virðist þessi munur á notkun orðanna staðbundinn því að dæmi eru til í talmálssafni Orðabókarinnar úr öllum landshlutum.

Dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar, sem er úr annál frá 1783, sýnir notkun sólhvarfa um sólargang að sumri:
  • En eftir sólhvörf, 21. Junii, kom votviðri [og] regn.
Orðið sólstöður á rætur að rekja til latínu solstitium af sögninni sto 'standa' en sólhvörf er samnorrænt orð, sbr. danska orðið solhverv í sömu merkingu.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske sprog. III:476--477. Kristiania 1896.
  • Björn Halldórsson. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Havniæ 1814.
  • Þorsteinn Sæmundsson. Stjörnufræði. Rímfræði. Alfræði Menningarsjóðs. Reykjavík 1972.