sólunda

sólunda einhverju (fjármunum, tíma o.fl.) merkir að sóa því eða eyða í vitleysu. Orðalag þetta er kunnugt frá því á 18. öld að minnsta kosti en um upprunann er allt í óvissu. Helst hefur mönnum dottið í hug að tengja orðið við örnefnið Sólundir en svo heitir eyjaklasi við mynni Sognsævar á vesturströnd Noregs. Um uppruna örnefnisins er einnig flest á huldu, sumir hafa fyrir satt að eyjarnar séu kenndar við sólina, aðrir hallast að því að fyrri liðurinn, sól-, eigi rætur að rekja til orðstofns sem merkti 'skarð' eða 'vík' og nafnið hafi því merkt 'hinar vogskornu eyjar'.

Sólundir koma nokkrum sinnum við íslenskar fornsögur, m.a. Egils sögu þar sem segir frá illdeilum feðganna Kveld-Úlfs og Skalla-Gríms við Harald konung hárfagra:

En er þeir voru búnir, þá sigldu þeir í brott; þeir sigldu í eyjar þær, er Sólundir heita; það eru margar eyjar og stórar og svo mjög vogskornar, að það er mælt, að þar munu fáir menn vita allar hafnir.
(Egils saga, 398)

Þarna í Sólundum sátu þeir feðgar svo fyrir konungsmönnum og náðu að lokum fram hefndum áður en þeir létu í haf til Íslands.

Þess er víðar getið að víkingar hafi legið í leyni í Sólundum, stundum með her manns og fjölda skipa. Vel má hugsa sér að sögnin að sólunda sé af þessu dregin; þarna hafi þótt ótrygg siglingaleið og margir sjófarendur misst fjárhlut sinn í ræningjahendur. Á hinn bóginn gæti sögnin líka skírskotað til hættu sem kaupskipum stafaði af eyjum og skerjum við Sólundir, þar hafi margir brotið skip sín og tapað góssi.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Egils saga. 1985. Íslendinga sögur. Fyrra bindi, bls. 368-518. Svart á hvítu, Reykjavík.

Aðalsteinn Eyþórsson