sósíalisti

Viðhorf okkar til umheimsins og hinna ýmsu fyrirbæra mannlífsins hafa oft mótandi áhrif á þá mynd sem við gerum okkur af einstökum orðum og merkingu þeirra. Merkingarleg skilgreining á slíkum orðum getur verið vandasöm þótt flestir telji sig vita til hvers er vísað og orðið sé fast og rótgróið í málinu. Meðal orða af þessu tagi er orðið sósíalisti, sem kemur inn í íslensku sem tökuorð um miðja 19. öld.

Eins og mörg önnur aðkomuorð hefur það þótt framandlegt í upphafi. Um það bera vitni allmörg orð af íslenskri rót sem notuð eru um fyrirbærið framan af en eru nú flest fyrir löngu horfin úr málinu. Þessi orð eiga það sammerkt að endurspegla þá viðleitni manna að láta gerð orðsins varpa nokkru ljósi á merkingu þess. Eitt þessara orða, jafnaðarmaður, lifir enn góðu lífi, þótt vafasamt sé að það geti lengur talist beint samheiti orðsins sósíalisti. En um sósíalista eru einnig höfð þessi orð, sem nú eru flestum ókunnugleg: lögjafnaðarmenn, jafnaðarfræðingar, jöfnunarmenn, jafnréttismenn, jafningjar, sameignarmenn, samfélagsmenn, samlagsmenn, félægingar. Þess má og geta að í dansk-íslenskri orðabók Freysteins Gunnarssonar eru tvö jafnheiti við danska orðið socialist, jafnaðarmaður og þjóðeignamaður.

Þótt framangreind samheiti orðanna sósíalisti og jafnaðarmaður marki ekki djúp spor í íslenskri mál- og orðsögu og þau eigi takmarkað erindi í almenna orðabókarlýsingu hafa þau á vissu skeiði gildi sem heiti á mikilvægu hugtaki sem með tímanum verður æ fyrirferðarmeira í íslensku samfélagi. Þeir sem vilja rekja fyrri tíðar umfjöllun um hugtakið og eiga þess kost að leita upplýsinga í tölvuskráðum textasöfnum þurfa því að þekkja til þessara orða.