spássera

Sögnin að spássera, sem einnig er rituð spásséra, var algeng í málinu fram undir lok síðustu aldar og margir taka hana enn sér í munn. Hún er einkum notuð um það að ganga sér til skemmtunar.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru til dæmi um sögnina allt frá 16. öld. Guðbrandur Þorláksson biskup notar spássera t.d. í biblíuþýðingu sinni frá 1584:
  • Hann gieck vm Stræted hia eirne Hyrningu / spacierade a Veigenum hia hennar Hwse" (Orðskviðir 7. kafli, 8. vers).
Hún var ekki óalgeng í rituðu máli, m.a. hjá Halldóri Laxness. Þannig vílaði Steinn Elliði í Vefaranum mikla frá Kasmír ekki fyrir sér að spássera á leiðum í kirkjugarði, Pétur Pálsson framkvæmdastjóri í Heimsljósi spásseraði með ókunnugum manni aftur á bak og áfram um eignina, Salka Valka sagðist lítið hafa gert af því um dagana að biðja karlmenn að koma út að spásséra með sér og þegar María frá Ömpuhjalli í Paradísarheimt fór að spássera keyrðu menn yfir hana þegar í stað og beinbrutu hana. Sjálfur sagðist Halldór hafa ort flest ljóðin sín á strætum úti, þegar hann var að spásséra, sum í bíó.

Sögnin er talin tökuorð úr miðlágþýsku spatzêren og síðar úr dönsku spadsere.

Orðið spássering er einnig víða notað hjá Halldóri Laxness, t.d. þegar Jóhann Bogesen í Sölku Völku er á spásseringu með stafinn sinn, þegar frú Sofíe Sörensen í Heimsljósi lærbrotnar á báðum fótum um nónbil en er farin í spásseringu um miðjan aftan og þegar farið er í Brekkukotsannál í hæversklega spásseringu eftir sunnudagsmáltíð með hvítvíni.

Spássering er einnig tökuorð úr dönsku spadsering.

Ýmis nafnorð eru leidd af sögninni spássera og nafnorðinu spássering. Í ritmálssafni orðabókarinnar eru dæmi um spásseringarhanska, spásserkápu, spásserkjól, spásserstokk og spássertúr. Öll eiga þessi orð fyrirmyndir í dönsku.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Guðrún Kvaran

Guðrún Kvaran
janúar 2004