Sprellikarl

Flestir, að minnsta kosti þeir sem komnir eru yfir fermingaraldur, þekkja leikfangið sprellikarl. Það var gert úr pappa eða tréplötu. Búinn var til búkur, haus og útlimir. Á hvern útlim voru fest bönd sem öll tengdust síðan saman. Niður úr þeim gekk enn eitt band sem togað var í þannig að karlinn baðaði út öllum öngum. Oftast var hann hengdur á vegg.

Elst dæmi í Ritmálssafni Orðabókarinnar er úr blaðinu Bjarka frá 1901:

kríkarnir hafa geingið eins og á sprellikarli.

Þarna er ekki verið að tala um leikfangið sjálft heldur er verið að líkja einhverjum við það. Þó er leikfangið greinilega þekkt. Elsta dæmi í Ritmálssafni um leikfangið er frá 1940:

Hér [þ.e. í verzluninni] er næstum því allt, sem hugur okkar girnist: Sprellikarlar, skopparakringlur, munnhörpur.

Ein heimild er í safninu um sprellukarl með -u-i. Það er úr bók Þórbergs Þórðarsonar Sálmurinn um blómið II frá 1955, bls. 255. Þar stendur:

Litla manneskjan hringdi aftur til Sobbeggi afa og skrifaði honum líka bréf, og hún var eina manneskjan í heiminum, sem mundi eftir honum á jólunum. Þá sendi hún honum líkneski og afarskemmtilegan sprellukarl.

Orðið sprellikarl er fengið að láni úr dönsku, sprællemand. Þar er það bæði notað um leikfangið og í yfirfærðri merkingu um glettinn náunga eins og í íslensku og þekkist að minnsta kosti frá miðri 19. öld. Sprællemand er leitt af sögninni sprælle ‛gera að gamni sínu, ærslast’. Sögnin sprella í íslensku í sömu merkingu og nafnorðið sprell ‛ærsl, gamanlæti’ eru einnig fengin að láni úr dönsku.

Guðrún Kvaran
Nóvember 2011