stafadúkur

Margar konur kannast við að hafa þurft að sauma einhverjar útsaumsprufur í handavinnu. Meðal slíkra verkefna áður fyrr voru prufustykki með mismunandi sporum. Oft var saumað út allt stafrófið og árið sem stykkið var unnið.

Þessir klútar báru ýmis nöfn. Sveinbjörn Egilsson skáld orti eftirfarandi vísur og nefndi þær nafnadúksvísur:

Letrin tvö eru lögð við sjö,
lengi voru í brúki,
stafa sjö, en talna tvö
tjást í þessum dúki.

Ekki rík á funa foss,
en fús á menntagnóttir,
saumaði þennan klút í kross
Kristín Sveinbörnsdóttir.

Sveinbjörn hefur því þekkt heitið nafnadúkur. Önnur heiti, sem ég hef fundið, eru saumaleppur og prófdula sem bæði gera heldur lítið úr stykkinu. Saumadúkur og nafnaklútur eru bæði í ensk-íslenskri orðabók Geirs Zoëga frá um aldamótin 1900 sem þýðing á enska orðinu sampler. Enn fleiri heiti voru til eins og ísaumsklútur, stafaklútur, merkiklútur og merkidúkur, prufudúkur og prufuklútur, en langalgengast hefur verið að kalla stykkið stafadúk.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans