stígvél

Oft er talað um að íslenska sé óvenjulega gegnsætt tungumál og er þá gert ráð fyrir því að almennt sé hægt að ráða merkingu orða af útliti þeirra eða hljómi.

Þeir sem kunna íslensku geta vitaskuld oft farið nærri um merkingu orða sem þeir hafa hvorki heyrt né séð áður af því að þeir þekkja önnur skyld orð en það er samt fjarri sanni að málnotendur geti alltaf vitað hvað orð þýða án frekari skýringa. Þannig er t.d. nokkuð augljóst hvað orð eins og hjartsláttarmælir þýðir af því að það tengist fjölda annarra orða og orðasambanda í málinu: hjartað slær, þá myndast hjartsláttur sem hægt er að mæla og tæki sem mælt er með er kallað mælir. Aftur á móti er hæpið að fólk geti vitað merkingu orða eins og þota án útskýringa þrátt fyrir skyldleika við sögnina þjóta og merking orðsins húsbréf verður ekki ráðin beint af merkingu orðanna bréf og hús þótt bæði séu þau alþekkt orð.

Sum orð villa beinlínis á sér heimildir, ef svo má segja, því tengsl þeirra við önnur orð eru í rauninni bara sýndarfyrirbæri þegar betur er að gáð. Þannig er t.d. með hið velþekkta orð stígvél. Vissulega má til sanns vegar færa að merkingarlega tengist það sögninni að stíga eins og fyrri liður orðsins bendir til en hitt er hæpnara, að síðari liðurinn hafi nokkuð með orðið vél að gera. Merkingartengslin eru ekki augljós en best sést þetta á því að stígvél er hvorugkynsorð en orðið vél er kvenkyns og svo er einnig um öll samsett orð sem hafa það að síðari lið, t.d. borvél, eldavél og þvottavél.

En hvernig er orðið stígvél þá tilkomið? Upphaflega er það tökuorð, komið úr miðlágþýska orðinu stevel eða danska orðinu støvle sem aftur eiga rætur að rekja til ítalska orðsins stivale. Í fornu máli kemur einnig fyrir orðmyndin stýfill í sömu merkingu en dæmi virðast vera fá og sennilega hefur orðið snemma ummyndast í stígvél. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er fjöldi dæma um stígvél, þau elstu frá því um miðja 16. öld.

Í málfræði eru ummyndanir af þessu tagi nefndar alþýðuskýringar (folk etymology) því þær verða til við það að málnotendur leitast við að tengja framandlegar orðmyndir við kunnuglega orðliði og þannig skapast sýndartengsl við alls óskyld orð.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989
  • Icelandic-English Dictionary eftir Richard Cleasby og Guðbrand Vigfússon. (2. útg.) Oxford: Clarendon Press 1969