stjórnmálamaður og pólitíkus

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Stjórnmál eru mörgum hugleikin enda varða þau heill og hagsæld samfélagsins og einstaklinganna sem það byggja. Umræðan um stjórnmálin, sem  oft er óvægin og harkaleg, snýst ekki um málefnin ein heldur blandast hún gjarna ólíkum viðhorfum manna til þeirra sem standa á sviði stjórnmálabaráttunnar. Þá fer eftir atvikum hvort gætt er hófsemdar og hlutlægni eða tilfinningar og jafnvel fordómar ráða för og móta framsetningu og orðaval.

Þessi breytileiki endurspeglast að nokkru í þeim tveimur orðum sem einkum eru höfð um þá sem gefa sig að stjórnmálastarfi , orðunum stjórnmálamaður og pólitíkus. Orðin koma bæði fram í ritheimildum frá síðari hluta 19. aldar og hafa átt trygga samleið allar götur síðan.

Samanburður á notkunarsamböndum þessara tveggja orða í gagnagrunni Íslensks orðanets leiðir vel í ljós hvernig sambandi og skyldleika þeirra er háttað. Vitnisburðurinn er að meginhluta til sóttur til textadæma í í stafrænu safni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, timarit.is. Ríkulegt dæmasafn er um bæði orðin en orðið stjórnmálamaður er talsvert fyrirferðarmeira og kemur fram í fleiri samböndum. Hvort sem litið er til einkennandi lýsingarorða eða nafnorða í hliðskipuðum samböndum (sambanda eins og lögfræðingar og stjórnmálamenn, pólitíkusar og framámenn)  eiga þessi tvö orð að miklu leyti samleið með sömu orðum en að öðru leyti koma fram einkennandi fylgdarorð með hvoru þeirra um sig.

Úr Íslensku orðaneti Úr Íslensku orðaneti Meðfylgjandi myndir sýna brot úr samanburðartöflu orðanetsins (smellið á myndirnar til þess að stækka þær). Teiknin framan við orðin (fletturnar) vísa til gagnategundar, þar sem O á við orðasamband (orðastæðu) og P táknar hliðskipað samband (orðapar). Tölulegur samanburður sýnir að 284 fylgdarorð koma aðeins fram með orðinu stjórnmálamaður, 59 eiga aðeins við pólitíkus en 74 koma fram með þeim báðum.

 

Einkennandi lýsingarorð með orðinu stjórnmálamaður lúta m.a. að ábyrgð og trausti: ábyrgur, þjóðhollur, merkur, málsmetandi, mikils metinn, mætur. Önnur vísa til reynslu: reyndur, þrautreyndur, sjóaður, æfður, þaulæfður.

Í lýsingarorðum með orðinu pólitíkus ber meira á annars konar vísun. Sum eiga við ábyrgðarlaust tal (blaðrandi, gasprandi), önnur vísa til hentistefnu (prinsipplaus, tækifærissinnaður), enn önnur til óheilinda og spillingar (ómerkilegur, siðblindur, spilltur, valdspilltur).

Fylgdarorð í orðapörum með orðinu pólitíkus bera áþekkan svip: kjaftaskur, skrumari; þjóðmálaskúmur, stofuhagfræðingur; eiginhagsmunaseggur, sérhagsmunaöflframapotari, bitlingamaður; gróðamaður, hermangari. Orðið stjórnmálamaður tengist þar skýrar hlutlausari orðum með jákvæðari merkingarblæ: atvinnuveitandi, bankamaður, flokksleiðtogi, friðarsinni, stjórnvitringur, andans menn, frjáls félagasamtök.

Þótt notkunarsambönd orðanna vitni þannig um ólíkan merkingarblæ vitna þau einnig um náinn skyldleika þar sem einkennandi fylgdarorð eru að verulegu leyti hin sömu.

Notkunarsamböndin sem hér koma fram hafa ekki aðeins gildi fyrir lýsingu og samanburð á þessum tveimur orðum. Í orðanetinu eru þau efniviður til merkingarflokkunar orðaforðans, og þar birtast víða merkingarlegar samstæður og samheiti: afturhaldssamur, afturhaldssinnaður, íhaldssamur, erkiíhaldssamur; harðsnúinn, harðvítugur; efnahagsspekúlant, fjármálaspekingur; bissnessmaður, viðskiptajöfur; alþýða, landslýður, landsmenn; verkalýðsleiðtogi, launþegaforingi.

Orðið stjórnmálamaður fylgir algengu orðmyndunarsniði: X-maður = sá sem fæst við X (sbr. t.d. íþrótta-maður, garðyrkju-maður, vísinda-maður).  Orðið stjórnmál kemur fyrst fram í rituðum heimildum upp úr miðri 19. öld. Í Danskri orðabók Konráðs Gíslasonar frá 1851 eru önnur skýringarorð við danska orðið politik:  (land)stjórnarfræði, stjórnaraðferð, og orðið politiker fær þar skýringuna landstjórnarmaður, (land)stjórnarvitringur. Orðið pólitíkus er af grískum og latneskum stofni en hefur vísast komið inn í íslensku úr dönsku, þar sem það er gamalt og úrelt samheiti við orðið politiker með neikvæðum merkingarblæ.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Heimildir

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • www.timarit.is
  • Konráð Gíslason. Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Kaupmannahöfn 1851.
  • Ordbog over det danske sprog. København 1919-.

Jón Hilmar Jónsson
Þórdís Úlfarsdóttir