strandhögg

Hernaður víkinga fyrr á tíð fólst mjög í því að herja á strandbyggðir með ránskap og illvirkjum. Til þessa athæfis vísar orðið strandhögg sem upphaflega er haft um kvikfé sem rænt hefur verið og er slátrað víkingum til matar og viðurværis. Um það vitna eftirfarandi dæmi, hið fyrra úr Egils sögu, hið síðara úr Jómsvíkinga sögu:

Víkingar höfðu haft mikið herfang ofan og strandhögg, og er þeir komu til skipanna, hjuggu sumir búféð ...
Vagn liggur við eyna, og ganga þeir upp og ætla að fá sér strandhögg, ef það ber að hendi.

Merking orðsins strandhögg verður síðan bundin við verknaðinn sem slíkan og fær almennari merkingu með vísun til árása á byggðir manna af sjó með tilheyrandi ofbeldi og átroðningi.  Þannig mótast einnig merking orðasambandsins höggva strandhögg sem fyrst á við slátrun búfjár sem rekið hefur verið til strandar. Í heimildum er það oft samferða öðru orðasambandi sem vísar til ránsferða í strandbyggðum og á útnesjum, sambandinu nema nesnám, eins og fram kemur í eftirfarandi dæmi úr Heimskringlu:

... og um vor fóru víkingar um Eyjar, námu nesnám og hjuggu strandhögg.

Í yngra máli kemur orðið strandhögg einkum fram í orðasamböndunum höggva strandhögg og gera strandhögg og er þá grunnmerkingin tengd umræddu hátterni víkinga. Eftirfarandi dæmi er úr Tímanum árið 1946 þar sem fjallað er um hernað í heimsstyrjöldinni sem þá var nýlokið:

Sjóhernaðurinn er einnig rekinn af kappi, og vel þjálfaðar úrvalssveitir gera strandhögg hér og þar á hernámssvæðum Þjóðverja.

Í Alþýðublaðinu árið 1943 er umræðuefnið framferði sjóræningja frá Túnis fyrr á öldum:

gerðu ræningjarnir útrásir, brunuðu á skipum sínum fram og aftur um Sikileyjarsund, rændu friðsöm kaupskip, hjuggu strandhögg á Ítalíu, rændu íbúunum og seldu þá á þrælamarkaði.

Hér er lýst ránum og hernaði en víkingatíminn hefur einnig á sér jákvæða ímynd, þar sem hreysti og garpskapur er í fyrirrúmi og herferðir afla mönnum frægðar og frama. Sú ímynd hefur orðið ríkur þáttur í notkun og merkingu þessara orðasambanda. Þau hafa því þótt eiga vel við þegar lýst hefur verið djörfum og framsæknum athöfnum íslenskra fjármála- og athafnamanna á erlendri grund, og þannig falla þau vel að algengu heiti sem um þá er haft, útrásarvíkingar.

Sumarið 1985 birtist grein í Þjóðviljanum eftir ritstjórann, Össur Skarphéðinsson, undir fyrirsögninni „Ný sókn í atvinnumálum“. Þar segir m.a.:

Það þarf framleiðslu. Það þarf auðsköpun. Þess vegna þurfum við að líta til nýrra átta. Við verðum að höggva strandhögg í nýjum löndum. Leggjast í víking í veröld tækni og vísinda. Hrinda af stokkunum nýjum atvinnugreinum, og umbylta þeim gömlu.  

Sumarið 1991 er rætt við íslenskan athafnamann í tímaritinu Frjáls verslun. Hann er m.a. kynntur með þessum orðum:

Hann hefur um þriggja áratuga skeið stýrt einu öflugasta iðnfyrirtæki landsins og víða höggvið strandhögg, stundum með misjöfnum árangri. Óbilandi bjartsýni og trú á framtíð íslensks iðnaðar hefur verið drifkrafturinn í fyrirtækinu.

Leit á netinu að orðasambandinu gera strandhögg skilar m.a. eftirfarandi dæmum frá síðustu árum:

Íslensk fyrirtæki hafa gert strandhögg á erlendri grundu núna í rúman áratug.
Færeysk fyrirtæki, einkum bankar, hafa reyndar gert strandhögg í Danmörku með bærilegum árangri.
... ætla silfurdrengirnir í Tindastóli að gera strandhögg á Hlíðarenda og sækja öll þau stig sem í boði eru er þeir etja kappi við Valsmenn.

Eins og síðastnefnda dæmið sýnir leitar orðasambandið nú m.a. inn í mál íþróttanna, þar sem fyrir er gnótt orða og líkinga sem sóttar eru til hernaðar.

Forn merking orðsins strandhögg og orðasambanda þess lifir vissulega enn í málinu en eins og hér kemur fram leitar merkingin æ skýrar inn á nýjar slóðir þar sem árangur, frami og sigursæld eru ráðandi þættir.

Heimildir

  • Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883-1896). Med et bind tillegg og rettelser redigert av Didrik Arup Seip og Trygve Knudsen. Oslo 1954-1972.
  • Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa. Edda, Reykjavík.
  • Íslenskt textasafn. http://www.arnastofnun.is/page/gagnasofn_textasafn
  • www.timarit.is

Jón Hilmar Jónsson
apríl  2013