strax

Notkun og merking
Atviksorðið strax er haft til að vísa til allra nánustu framtíðar miðað við tíma ummælanna, merkingu þess mætti umorða: 'á næsta augnabliki, nú þegar, undir eins'.

Orðið á margt sameiginlegt með atviksorðum eins og bráðum og áðan sem afmarka tíma á svipaðan hátt. Strax og bráðum eiga það sammerkt að vísa fram í tímann en munurinn er einkum sá að tímaramminn sem strax afmarkar er þrengri: strax er fyrr en bráðum.

Annað samkenni á þessum þremur atviksorðum er að fjórða atviksorðið, rétt, (sem að formi til er raunar hvorugkynsmynd lýsingarorðsins réttur) er notað til að móta nánar merkinguna. Í tilviki áðan og bráðum þrengir það tímarammann ef rétt er skeytt framan við:
 • Ég kem bráðum aftur
 • Hún var hér áðan
 • Ég kem rétt bráðum aftur
 • Hún var hér rétt áðan
Þegar rétt er skeytt framan við strax bregður hins vegar svo við að tímaramminn verður víðari en ella – enda getur hann varla orðið þrengri:
 • Ég skal segja þér það strax
 • Ég skal segja þér það rétt strax

Saga og uppruni
Orðsifjabókin segir strax vera tökuorð úr lágþýsku straks, stra(c)kes 'beint, undir eins'. Orðinu bregður aðeins fyrir í íslenskum fornritum en þegar á 16. öld er það orðið allalgengt, það kemur t.d. einum 64 sinnum fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu og 15 sinnum í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Ef litið er á merkingu og notkun orðsins á fyrri öldum virðist hún í flestum tilvikum samsvara nútímanotkun en frá því eru þó nokkrar undantekningar, þessar helstar:

1. Fyrir kemur að strax sé notað í staðarmerkingu:
 • forgamall stekkur fra Reykjahólum stendur strax fyrir utan veginn. (16. öld)
 • Norðurá (sem þá féll þar strax undir hólnum). (17. öld)
 • eitt lík var borið til strandar strax þar við, hvar ég var. (18. öld)
2. Nokkuð er um að strax sé notað í merkingunni 'áðan, nýlega':
 • lausnargjaldið var langtum stærra en alls heimsins syndir, so sem strax var áminnst. (um 1700)
 • Eg vil aptur hverfa til þess, er eg strax um talaði, (18. öld)
Af þessari notkun eru sprottin samsett orð eins og straxgreindur, straxnefndur, straxskrifaður, straxtalinn og straxtéður sem öll koma fyrir í skjalamáli 17. og 18. aldar.

3. Loks er strax stundum notað í merkingunni 'um leið', einkum sambandið strax sem en það virðist samsvara nokkurn veginn 'um leið og' í nútímamáli:
 • Þá neitaði Pétur því enn einu sinni, og þá strax gól haninn. (16. öld)
 • þá varð honum það og fyrir að iðrast strax sem Guð lét hann þekkja synd sína (18. öld)
Heimildir
 • Söfn Orðabókar Háskólans.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
 • Jón Hilmar Jónsson. 2000. Bráðum. Orðhagi, afmæliskveðja til Jóns Aðalsteins Jónssonar 12. október 2000; bls. 70-79.
 • Jón Hilmar Jónsson. 2003. Áðan. Orð vikunnar á vef OH 23.-30. nóv. 2003.

Aðalsteinn Eyþórsson