sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt núgildandi tímatali er sumardagurinn fyrsti fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl, þ.e. hann er á bilinu 19.–25. apríl. Hann er um leið fyrsti dagur í hörpu (sjá pistil um það orð). Eftir svokölluðum ,,gamla stíl“ sem gilti hérlendis og í norðurhluta Evrópu fram undir 1700 var sumardagurinn fyrsti á bilinu 9.–15. apríl. Með sumardeginum fyrsta hófst sumarmisserið hvernig svo sem viðraði og í raun var oftast talsvert í sumarblíðuna.

Sumardagsins fyrsta er snemma getið. Í Gylfaginningu Snorra-Eddu segir frá því hvernig æsir rufu eiða þá sem þeir höfðu svarið borgarsmiðnum. Borgarsmiðurinn hafði boðist til að reisa á þremur misserum borg svo góða að hún héldi frá bergrisum og hrímþursum. Í staðinn átti hann að fá Freyju að konu og að auki sól og mána.

Þá gengu æsir á tal ok réðu ráðum sínum, ok var  þat kaup gert við smiðinn, at hann skyldi eignast þat, er hann mælti til, ef hann fengi gert borgina á einum vetri, en inn fyrsta sumarsdag, ef nökkurr hlutr væri ógerr at borginni, þá skyldi hann af kaupinu. (1954:60).

Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, sem talin er rituð 1250–1280, segir:

Hinn fimmti dagur viku skal vera fyrstur í sumri. Þaðan skal telja þrjá mánuði þriggja tiga nátta og nætur fjórar til miðsumars. (1992:35)

Dagurinn nefndist einnig í Grágás sumarsdagur hinn fyrsti eða sumardagur hinn fyrsti (1992:303–304). Dagurinn er einnig nefndur víða í fornsögum.
Elsta heimild í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr ritinu ,,Calendarivm. Islendskt Rijm“ sem Arngrímur Jónsson lærði gaf út 1597. Þar stendur um fimmtudag:

Hann er Sumar dagur hinn fyrste.

Þeim sem frekar vilja lesa um sumardaginn fyrsta er bent á bók Árna Björnssonar þjóðháttafræðings ,,Saga daganna“, einkum blaðsíður 31–47.

Heimildir:

  • Edda Snorra Sturlusonar. 1954. Akureyri, Íslendingasagnaútgáfan.
  • Grágás. 1992. Reykjavík, Mál og menning.
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (arnastofnun.is)


Guðrún Kvaran
Apríl 2012