sumarmál

Síðustu dagar vetrarins eru kallaðir sumarmál. Þorsteinn Sæmundsson segir svo í Stjörnufræði sinni (bls. 129):

Sumarmál, síðustu dagar vetrar að íslenzku tímatali, frá laugardegi til miðvikudags í 26. viku vetrar.     

Orðið sumarmál kemur þegar fyrir í fornu máli en virðist ekki eins fastskorðað að merkingu og hjá Þorsteini heldur á orðið við dagana kringum sumardaginn fyrsta, sumarbyrjun. Hinir eldri orðabókahöfundar eins og Guðmundur Andrésson (1683) og Björn Halldórsson (1814) skýra orðið á sama veg, þ.e. sumarbyrjun (á latínu initium æstatis). Sigfús Blöndal notar samsvarandi orðalag í hinni íslensk-dönsku orðabók sinni (1924): Sommerens Begyndelse, den Uge hvori den «förste Sommerdag» falder: um sumarmál(in), ved Sommerens Begyndelse. Orðið hefur getið af sér ýmsar samsetningar, s.s. sumarmálaleyti, um sumarmálaleytið, sumarmálavika, en einkum og sér í lagi ýmsar samsetningar sem lýsa veðri, eða öllu heldur óveðri, eins og sumarmálabylur, sumarmálagarður, sumarmálagusa, sumarmálahlaup, sumarmálahret, -hríð, -kast, -rumba  og sumarmálaskota og sjálfsagt ýmislegt fleira þessa kyns.

Orðið mál í síðari lið orðsins sumarmál merkir ‘tími’ og kemur fyrir í fleiri orðum eins og t.d.  dagmál, fyrramál, í fyrramálið, háttumál og náttmál. Það á sér samsvaranir í skyldum grannmálum, t.d. færeysku mál, dönsku mål, ensku meal, þýsku Mahl  í svipaðri merkingu, gotnesku mel ‘tími’. Að lokum má þess geta að öll eru orð þessi rótskyld orðunum mánuður og máni, dregin af indóevrópskri rót *mē- sem ber í sér merkinguna ‘mæla’. (Ásgeir Bl. Magnússon 1989:599, 603).

Heimildir
Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. [Reykjavík:] Orðabók Háskólans.
Björn Halldórsson. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. 1814. [Ný útgáfa 1992. Jón Aðalsteinn Jónsson sá um útgáfuna. [Reykjavík:] Orðabók Háskólans.]
Guðmundur Andrésson. Lexicon Islandicum. Kaupmannahöfn 1683. [Ný útgáfa 1999. Gunnlaugur Ingólfsson og Jakob Benediktsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Orðabók Háskólans.]
Sigfús Blöndal. Islandsk-dansk Ordbog. 1920–1924. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.
Þorsteinn Sæmundsson. Stjörnufræði. Reykjavík 1972.

 

Gunnlaugur Ingólfsson
apríl 2013