tankur, tanki

Orðið tankur ‘geymir fyrir vökva eins og vatn, olíu, mjólk o.fl.’ er tökuorð í íslensku, líklega til okkar komið úr dönsku tank (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:1026). Elsta dæmi um orðið í fórum Orðabókar Háskólans er úr ritverkinu Virkið í norðri I. bindi, bls. 77 frá árinu 1947 eftir Gunnar M. Magnúss. Orðið er þó að líkindum eldra í málinu því að ýmsar samsetningar eru þá þegar komnar fram, svo sem t.d. tankskip (1912), tankbíll (1940) og tanklýsi (1940).

Til skamms tíma hefur orðið tankur haft tvenns konar beygingu sums staðar á landinu, annars vegar sterka beygingu, tankur, tank, tanki, tanks og hins vegar veika, þ.e. tanki, tanka o.s.frv. Í dálítilli athugun sem gerð var á vettvangi útvarpsþáttarins Íslenskt mál veturinn 1980 kom fram að heimildarmenn á Norðurlandi, þ.e. í Eyjafirði, bæði frammi í firði og úti í Svarfaðardal, og í Þingeyjarsýslum báðum könnuðust vel við veiku beyginguna tanki, tanka, notuðu þá mynd ýmist sjálfir eða þekktu úr sínu umhverfi. Enn fremur þekktu heimildarmenn á Austurlandi, af Vopnafirði, Jökuldal og Héraði, þessa mynd vel, og eins og Norðlendingar notuðu þeir þessa beygingu ýmist sjálfir eða þekktu úr sínum átthögum.  Stöku dæmi önnur um þessa beygingu komu víðar að, t.d. úr Vestmannaeyjum og Breiðafjarðareyjum.

Þess er að geta að orðið tankur, sem venjulega er framborið með á í fyrra atkvæði, /tánkur/, á sér einnig aðrar framburðarmyndir. Norðlenskir heimildarmenn, allt frá Skagafirði og austur í Þingeyjarsýslur, þekktu vel einhljóðaframburðinn /tankur/ í þessu orði. Enn fremur nefndu austfirskir heimildarmenn sama framburð. Þetta gildir jafnt um báðar beygingarmyndir, tankur og tanki. Þá nefndi Austfirðingur einnig framburðarmynd með æ, /tænkur/: stórir olíugeymar á Fáskrúðsfirði voru kallaðir tænkar. Þetta framburðarfyrirbæri er ekki með öllu óþekkt í öðrum orðum, sbr. t.d. gælunafnið Ranka (af Ragnhildur o.fl.) sem til er í þrenns konar framburðarmynd, /Ranka, Ránka, Rænka/.

Heimildir

Gunnlaugur Ingólfsson
mars 2012