milli tektar og tvítugs

Oft er komist svo að orði um aldur ungmennis að það sé milli tektar og tvítugs. Þetta er að vísu ekki mjög nákvæm aldursákvörðun, þar sem segja má að unglingurinn sé nýr maður að visku og vexti hvert ár þessa aldursskeiðs. En með orðasambandinu er átt við að unglingurinn sé fermdur, en hafi ekki náð tvítugsaldri að fullu. En hvað merkir þetta orð, tekt, nánar til tekið?

Orðið tekt er leitt af sagnorðinu að taka, en er einkum haft sem viðliður forskeyttra orða, t.d. eftirtekt, fyrirtekt, samantekt, tiltekt. Í nútímamáli kemur orðið tekt, ‘það að taka’, vart fyrir eitt og sér, en þekkist vel í eldra máli, allt frá fornu máli og fram á 19. öld a.m.k.:

 • það er til hollustueiðsins tektar og afleggingar þénar. ÞPétSjálf, 101

 • tekt: það að taka eða rífa hús… Sch

Í orðasambandinu milli tektar og tvítugs merkir tekt ‘ferming’. Eitthvert elsta dæmi bókfest um þá merkingu er að finna í orðabók Blöndals, í 3. lið undir orðinu tekt:

 • 3. (ferming) Konfirmation: drengurinn er kominn undir t[ekt], Drengen har snart naaet Konfirmationsalderen (Sl.)

Skammstöfunin Sl. í Orðabók Blöndals stendur fyrir Suðurland, og merkir það að Blöndal hefur dæmi um orðið af Suðurlandi, en það þarf ekki að þýða að orðið þekkist ekki annars staðar. Hins vegar benda dæmi Orðabókar Háskólans til hins sama. Þau eru einvörðungu úr ritum eftir sunnlenska höfunda.

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um orðið tekt og fáein dæmi um orðasambandið milli tektar og tvítugs. Heimildarmenn um þetta eru allir af Suðurlandi, og þeim ber saman um að tekt í merkingunni ‘ferming’ sé fátítt eitt og sér, en þeir kannast betur við orðalagið milli tektar og tvítugs. Þegar kemur fram á síðustu áratugi 20. aldar, einkum upp úr miðjum níunda áratugnum, fer að bera á orðasambandinu í rituðu máli:

 • Jóhann var unglingspiltur milli tektar og tvítugs eins og það var kallað. Goðasteinn 1988, 72
 • Hún hét Marta og var milli tektar og tvítugs. SAMKal, 17
 • Það er misskilningur ... að … Steinn Steinarr, hafi verið unglingur milli tektar og tvítugs sumarið 1933 [f. 1908]. Saga 1985, 325

Eins og vikið var að hér að framan, er orðið tekt myndað af sagnorðinu taka. Ein merking þess er ‘ferma’, en sú merking er nú nánast horfin úr málinu, taka barn, taka til altaris, taka eða ganga innar, þ.e. til altaris, en allt lýtur þetta að altarissakramentinu, með því var barnið orðið hlutgengt í samfélagi kristinna.

Heimildir:

 • Orðabók Blöndals. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1920–24.
 • Orðabók Háskólans: arnastofnun.is [ Ritmálssafn].
 • Orðabók Háskólans. Talmálssafn.
 • Goðasteinn. Héraðsrit Rangæinga. Selfoss 1988.
 • Saga. Tímarit Sögufélags. XXIII–1985. Reykjavík. 1985.
 • SAMKal: Sigurður A. Magnússon. Undir kalstjörnu. Uppvaxtarsaga. Reykjavík 1981.
 • Sch: Orða-Safn úr nýara og daglega málinu tínt saman af Skólakennara Dr. H. Scheving. [Handrit frá miðbiki 19. aldar].
 • ÞPétSjálf: Sjálfsævisaga síra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka. Reykjavík 1947. [Handrit skrifað 1750-1782].

Gunnlaugur Ingólfsson
mars 2008