tevatn

Ýmsir kannast við orðasambandið að fá til tevatns eða tevatnsins um að fá ávítur fyrir eitthvað og einnig að fá fyrir tevatn í sömu merkingu. Algengara er þó að láta einhvern finna til tevatnsins um að ná sér niðri á einhverjum. Sumir tala um að láta einhvern fá tevatnið sykurlaust og eiga þá við að hann fái slæma útreið. Þetta síðastnefnda orðasamband er vel þekkt á Norður- og Austurlandi en einnig í Reykjavík.

Orðið tevatn er tökuorð úr dönsku, tevand, og dæmi eru til um það í söfnum Orðabókar Háskólans frá því á 18. öld. Það er bæði notað í merkingunni 'tedrykkur' og staðbundið um mjólkurbland. Um orðasamböndin eru ekki til dæmi í söfnunum eldri en frá síðari hluta 20. aldar. Í orðabók Sigfúsar Blöndals (1920-1924) er sambandið að fá til tevatnsins merkt með spurningarmerki sem þýddi að það ætti sér erlendar rætur og væri því óæskilegt í málinu.

Afbrigðin að fá til tevanns og að fá fyrir tevann í merkingunni 'vera ávíttur, fá skammir' þekkjast líka og gætu bent til dansks framburðar.