Þerrifluga

Í rigningartíðinni undanfarnar vikur hefði verið fagnaðarefni að heyra þerrifluguna suða í glugga, heyra notalegt þerrisuðið. Um fluguna skrifaði Þórður Tómasson frá Vallnatúni, safnvörður í Skógum:

Fiskifluga, sem suðar á glugga í deyfutíð, var nefnd þerrifluga (1979:35).

Fyrir utan dæmið úr Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð á Orðabók Háskólans aðeins eitt annað dæmi úr prentuðu máli. Það er úr bókinni Bræðurnir í Grashaga eftir Guðmund Daníelsson (1935:64):

á blómunum sátu gráar og digrar þerriflugur og sugu hunang. (1935:64)

Svo virðist sem heitið þerrifluga sé eða hafi helst verið notað á Suður- og Vesturlandi, að minnsta kosti bárust engin dæmi úr öðrum landshlutum við fyrirspurn í þættinum ,,Íslenskt mál“ í Ríkisútvarpinu fyrir hálfum öðrum áratug. Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli í Önundarfirði sagði t.d. að á heimaslóðum hans hefði verið miklu algengara að tala um þerriflugu en maðka- eða fiskiflugu. Annar vestfirskur heimildarmaður sagði þó að maðkaflugan hefði aðeins verið nefnd þerrifluga þegar hún tók að suða í sólskini. Þá hefði þurrkur verið í nánd. Í bréfi frá Kristrúnu Matthíasdóttur á Fossi í Hrunamannahreppi kom þetta fram: ,,Eftir langvarandi dumbungsveður kom stundum fyrir að allt í einu var komin eldspræk fluga í gluggann og suðaði ákaft. Hún þótti boða léttviðri og þurrk og var nefnd þerrifluga.“ Þeir Þórður Tómasson og Guðmundur eru báðir Sunnlendingar.

Ekki þekktu Vestfirðingarnir að suðið hefði verið kallað þerrisuð en það þekktu aftur á móti allnokkrir Sunnlendingar. Sumir sögðust ekki þekkja nafnið þerrifluga á fiskiflugunni en vel að nú væri komið þerrisuð í hana ef suðið varð allt í einu mjög áberandi eftir suddarigningu. Það boðaði alltaf betri tíð og sólskin. Um þerrisuðið fundust engin dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar.

Orðin þerrifluga og þerrisuð virðast ekki hafa ratað inn í orðabækur. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals er hvorugt orðið að finna þótt Sigfús hafi lagt sig eftir að hafa með orð úr mæltu máli. Þerriflugan og þerrisuðið eru aðeins tvö dæmi af mörgum um orð sem einungis lifa í mæltu máli og komast lítið sem ekkert á bækur.

Heimildir:
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Guðmundur Daníelsson. 1935. Bræðurnir í Grashaga. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
  • Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
  • Þórður Tómasson frá Vallnatúni. 1979. Veðurfræði Eyfellings. Greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.