þæfing og þóf

Kvenkynsorðið þæfing er nú til dags haft um verknaðinn að þæfa. Engin dæmi eru um orðið í ritmálssafni Orðabókarinnar en þar eru dæmi um orðið þóf í sömu merkingu, allt frá síðari hluta 18. aldar. Í svörum við spurningalistum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins um ullar- og tóvinnu frá upphafi 20. aldar eru hins vegar fjölmörg dæmi eru um orðið þæfing og þar eru greinargóðar lýsingar á verklagi og orðanotkun og eru orðin þóf og þæfing notuð á víxl:

Þæfingu önnuðust karlmenn æfinlega það ég vissi til. Þeir voru staðsettir í baðstofum helst við rúmgafl öðrumegin og með borð hinumegin, handa þeim að halda höndunum í. Æfinlega var þæft undir fótum á palli, (þó sá ég menn hafa hurð undir þófi). Þófarar voru aðeins í nærbuxum og skyrtu og héldu svo vel áfram að þeir voru æfinlega kófsveittir. Oftast var voðin aðgætt einu sinni eða tvisvar meðan á þófinu stóð.

Í nútímamáli er orðið þóf algengast í yfirfærðri merkingu um vinnu sem gengur seint eða þref, þjark, karp o.þ.h., enda er ullar- og tóvinna almennt ekki lengur hluti af daglegu lífi fólks. Í dæmum í ritmálssafni Orðabókar Háskólans kemur fram að merking orðsins er talsvert margræð:

1. Verknaðurinn, það að þæfa:
  • Hálf-vættar vod 26 álner ó-þæfd á ad gánga í þófe um tvær álner. (18. öld)
2. Breytingin eða eiginleikinn sem ull fær við verknaðinn:
  • Eitt af aðaleinkennum ullarinnar er þófið , og er það algjörlega physikalskt. (20. öld)
3. Hluturinn sem þæfður er, voðin:
  • Karl stígur á þófið í kýrbás. (20. öld)
4. Hreyfing:
  • sem ásamt sjálfs magans þófi edur hræríngu, kallast matarmeltíng. (18. öld)
5. Seinlegt verk, e-ð sem dregst á langinn:
  • Þá leiddist Eiríki konúngi þófið og fór af af landi burt. (19. öld)
6. Þref, þjark, karp:
  • Það hefur í frá upphafi verið mín köllun, að eiga í þjarki og þófi við alla réttarins óvini. (19. öld)
Í svörum við spurningalistum þjóðháttadeildar eru eftirfarandi þófaraþulur eða -vísur:

Bárður minn á jökli
leggstu nú á þófið mitt
ég skal gefa þér lóna
innan í skóna
naglabrot í skipið þitt
ef þú leggst á þófið mitt.

Bárður minn á jökli, leggstu á þófið mitt
ég skal gefa þér lóna innan í skóna
vettlinga á klóna
þegar ég kann að prjóna.
Naglabrot og gimbrarskel
og meira ef þú þæfir vel
Ég skal gefa þér lamb úr stekk
Það skal vera hvítt og svart
og mórautt undir bógnum í skógnum.

Heimildir
  • Íslensk orðabók, 3. útgáfa. Edda, 2002.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Textasafn Orðabókar Háskólans.