þrettándi

Þrettándinn er, eins og allir vita, 6. janúar. Hann er þrettándi og síðasti dagur jóla og honum tengjast ýmsir siðir, venjur og þjóðtrú eins og lesa má um í bók Árna Björnssonar, Saga daganna (bls. 401-404). Á þrettándanum eru t.d. víða haldnar álfabrennur og að honum loknum eru jólaljósin slökkt, jólatré tekin niður og jólaskrautið sett í geymslu til næstu jóla.

Nafnorðið þrettándi kemur fyrst fyrir í rituðu máli á 17. öld samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Það er sprottið af töluorðinu þrettándi í sambandinu þrettándi dagur jóla og nafnorðið er því eins konar stytting á orðasambandinu líkt og þegar fólk nú á dögum kallar 17. júní "sautjándann". Ekki er ólíklegt að þessi málvenja eigi sér lengri sögu í daglegu tali en ritheimildir gefa til kynna. Nafnorðið er ýmist notað með eða án greinis og einnig eru dæmi um að orðasambandi sé notað í heild sinni:
 • Það var einn dag skömmu eftir þrettánda, að tveir menn gengu upp eftir túninu á Stöðli; (Textasafn OH)
 • Um þrettánda fæddi Sigríður dreng sem var látinn heita Hjálmar; (Textasafn OH)
 • Á 2. tug 20. aldar hélt kvenfélagið Ósk jafnan jólatrésskemmtanir á þrettándanum og var þangað boðið öllum börnum í bænum. (Mbl. 29.11.04)
 • Í löndum mótmælenda var þrettándinn lengi eftir siðbreytingu hátíð vitringanna, en árið 1770 var hann afnuminn sem messudagur, og þess vegna lagðist minning þeirra af hér á landi. Í Danmörku kallast 6. janúar þó ennþá "hellig tre kongers fest". (Mbl. 24.12.04)
 • Á þrettánda dag jóla var messað; (Textasafn OH)
Í söfnum Orðabókarinnar eru dæmi um ýmsar samsetningar með nafnorðinu þrettándi, t.d. þrettándagleði og þrettándanótt. Það hefur einnig fætt af sér orðasambandið (að eitthvað sé) þunnur þrettándi (eða þurrlegur þrettándi; sjá orðasambandaskrá OH) '(að eitthvað sé) rýrt eða lélegt (t.d. veitingar)' sem væntanlega má rekja til þess að fólk hafi gert sér dagamun í mat og drykk á þrettándanum.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Orðasambandaskrá Orðabókar Háskólans
 • Gagnasafn Morgunblaðsins.
 • Árni Björnsson: Saga daganna. Mál og menning 1993.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.
 • Jón Friðjónsson: Mergur málsins. Örn og Örlygur, bókaklúbbur 1993.