tívolí

Í íslensku er orðið tívolí notað sem samnafn um skemmtigarða með ýmiss konar leiktækjum, t.d. hringekju, rafmagnsbílum, litlum bátum, rússíbana, parísarhjóli og þess háttar, en það er einnig þekkt sem sérnafn á slíkum görðum hérlendis og erlendis. Upprunalega er þetta heiti á ítölskum bæ, skammt frá Róm, sem ýmsir frægir skemmtigarðar voru síðar kenndir við, meðal annars Tívolí í Kaupmannahöfn sem stofnað var 1843. Í dönsku er orðið einnig notað sem samnafn og þaðan hefur það væntanlega borist í íslensku. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans um orðið eru frá miðri 20. öld og þá sem samnafn en það hlýtur að hafa verið þekkt sem sérnafn frá því á 19. öld.
  • Þessa viku verður ýmislegt á dagskrá fyrir börnin, s.s. pulsupartý, grillveizla, tívolí og fleira. (Ritmálssafn OH)
  • Því að við erum fljótir að verða leiðir á tívolíum. (Ritmálssafn OH)

Heimildir
  • Ritmáls- og talmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Íslensk orðabók. (3. útgáfa.) Reykjavík: Edda 2002
  • Íslenska alfræðiorðabókin. Reykjavík: Örn og Örlygur 1990