tvímánuður

Eins og Árni Björnsson bendir á í Sögu daganna (1993:17) eru fornu mánaðaheitin talin upp í tveimur ritum. Annað nefnist Bókarbót og er varðveitt í handriti frá um 1220. Hitt ritið er Snorra-Edda og eru mánaðaheitin talin þar upp í Skáldskaparmálum. Ekki ber mánaðaheitunum saman. Í Bókarbót er tvímánuður talinn upp á milli fjórða mánaðar sumars og sjötta mánaðar sumars.

Páll Vídalín hefur tvímánuð með í riti sínu Skýríngar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast og segir á bls. 570 (dæmið er fengið úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans):

Nú síðan sá nýi-stýll er innkominn, þá er reglan þessi: ,,Tvímánuður kemur á þriðjudag, aldrei fyrr en 21. Ágúst, það er deginum fyrir Syymforianusmessu, og aldrei síðar en 27. Ágúst, það er deginum fyrir drottníngar Lovísu fæðíngardag.

Tvímánuður hefst því þriðjudaginn í 18. viku sumars (í 19. ef sumarauki er), þ.e. 22.–29. ágúst. Páll reyndi að skýra nafn mánaðarins á eftirfarandi hátt:

Það sýnist mér líkast, að einmánuður heiti svo af því, að hann er þá ein eptir vetrarins, en tvímánuður, af því þá eru tveir eptir af sumrinu.

Aðra skýringu á tvímánuði er að finna í Almanaki Hins íslenska þjóðvinafélags frá 1878 (bls. 52):

Eptir hinu forna íslenzka tímatali er upphaf ársins um miðsumar, þegar byrjar hey- annamánuð það sannast af því, að næsti mánuður heitir tvímánuður, þ.e. annar mánuður árs.

Samkvæmt Bókarbót er tvímánuður annar síðasti mánuður sumars og er líklegt að hann dragi nafn sitt af því eins og fram kemur í skýringu Páls Vídalín.

Heimildir: