tyggigúmmí

Eins og flestum mun kunnugt er tyggigúmmí mjúkt, teygjanlegt efni, oftast sætt og með bragðefni (t.d. piparmyntu), ætlað til að tyggja. Tyggigúmmí kom fyrst á markað í Bandaríkjunum skömmu eftir 1870 og heitir chewing gum á ensku. Talið er að íslenska orðið sé tökuþýðing á danska orðinu tyggegummi, en það er aftur bein þýðing á enska orðinu og þýðing af þessu tagi er notuð sem heiti á efninu í flestum evrópumálum. Elsta dæmi um orðið tyggigúmmí í söfnum Orðabókarinnar er úr Speglinum frá 1929.
 • Adams Chiclets er besta tyggigummíið, sem fæst í borginni.
Áður en íslenska orðið festist í sessi brá fyrir ýmsum afbrigðum af því. Í söfnum Orðabókarinnar má m.a. finna myndirnar tuggugúmmí (frá 1932), tuggugúm og tyggigúm. Orðmyndir með u-i virðast aldrei hafa náð útbreiðslu en finna má fjölmörg notkunardæmi bæði um tyggigúm og tyggigúmmí.
 • einhver fer að nota tyggigúm til að venja sig af reykingum. (Ritmálssafn OH)
 • Það tottar hér vindlinga töluvert hreykið og tyggigúm étur í hádegisverð. (Textasafn OH)
 • Sælgæti, tyggigúm og gosdrykkir er bannað í skólanum á skólatíma. (Vefsíða á netinu)
 • í Reykjavík þar sem ungar stelpur jórtra tyggigúmmí upp á líf og dauða. (Ritmálssafn OH)
 • Singapúr bannaði alla notkun tyggigúmmís 1992 vegna þess að fólk var gjarnt á að henda því á götur (Textasafn OH)
 • Ef þú eða barnið þitt fáið tyggigúmmí í fötin er besta ráðið að leggja flíkina í frystinn um stund. (Vefsíða á netinu)
Langalgengasta orðmyndin er þó styttingin tyggjó. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru dæmi um hana frá 1955 og fjölmörg dæmi má finna um hana þar og í öðrum heimildum:
 • Hann […] leit á mig eins og ég hefði sóað fjárlögum Bandaríkjanna í tyggjó. (Ritmálssafn OH)
 • hvernig hún pírir augun og hættir að tyggja tyggjóið og fer að hlusta. (Textasafn OH)
 • uppgötva ég að munnurinn á honum er límdur saman með tyggjóinu hans Jespers. (Textasafn OH)
 • Þarna stóð hann með tár í augunum og risa stóra skærgræna tyggjó klessu í toppnum (Bloggsíða á netinu)
 • Ég fór í glænýjum gallabuxum í bíó einu sinni og fékk tyggjó í þær (Spjallþráður á netinu)

Heimildir
 • Ritmáls- og talmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Textasafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989
 • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Reykjavík: Edda 2000