úllen dúllen doff ...

Þulur eins og Úllen dúllen doff og Ugla sat á kvisti eru alþekktar í leikjum barna og hafa verið lengi. Þær eru notaðar til að velja einhvern eða eitthvað úr ákveðnum hóp.

Heiti á slíkum þulum eru nokkur og vísa þau í tilgang þulanna: leikjarvísa, leikvísa, talningaþula, talningsleikur, úrtalningarþula, úrtíningsþula og úrtöluþula. Einnig eru til sagnorð sem tengjast þessum þulum og eru þau þá notuð um það að þylja þulurnar til að velja úr. Þar má nefna sagnirnar að enimena, að ugla, að uglasata og að úlla. Að gera úllen dúllen doff og að gera ugla sat á kvisti er einnig þekkt orðalag.

En hvernig eru svo þessar þulur? Hér koma nokkrar sem Orðabók Háskólans á í fórum sínum:

Ugla sat á kvisti,
átti börn og missti,
eitt, tvö, þrjú
og það varst þú
sem ert úr!

Úllen dúllen doff
kikki lani koff
koffi bani kikki lani
úllen dúllen doff.

Úllen dúllen dú
koffe ralle kú
koffe ralle búkke balle
úllen dúllen dú.
(Innanvert Ísafjarðardjúp um aldamótin 1900)

Ég á sokk sem gat er á.
Far þú frá!

Eni, meni, ming, mang,
kling, klang,
úsi, búsi, bakker dig
æir, væir, væk med dig.
(Mikið notuð á Akureyri um og fyrir 1950)

Arka, barka, búnísarka
ella, mella mía
on, sjon, djon.
Ísla, písla, topp, stopp.
Eniga, meniga, súkkana dí
obbel dobbel domm og dí
du skal gå i øst min ven
ex press dobbelt ex.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans

Ólöf Margrét Snorradóttir
september 2002