unglingur

Stundum er látið í veðri vaka að unglingar hafi verið „fundnir upp“ á seinni hluta 20. aldar. Fram að þeim tíma hafi einungis verið til börn og fullorðnir. Ef litið er á sögu orðsins unglingur fær þessi kenning þó vart staðist, a.m.k. var farið að tala um unglinga löngu fyrir 20. öld.

Elsta dæmi Orðabókarinnar um orðið unglingur er úr rímnahandriti frá 17. öld (AM 615f 4to). Þar eru m.a. skrifaðar Grobbíansrímur, sem hafa verið eignaðar sr. Guðmundi Erlendssyni og fleirum, en í þeim segir (stafsetning samræmd):

En unglingur af óvananum ei vill láta
lítt gegnandi boði blíðu
en bitur varð af reiði og stríðu.

Hér er reyndar engu líkara en verið sé að lýsa hegðun dæmigerðs nútímaunglings – svo ekki skýtur þetta dæmi stoðum undir kenningar um unglinginn sem nútímafyrirbæri.

Ýmislegt bendir þó til þess að á fyrri öldum hafi orðið verið notað á dálítið annan hátt en nú tíðkast. Í Íslenskri orðabók (tölvuútgáfa 2000) er orðið unglingur skýrt svo:

ungur maður á aldrinum frá um 13 til 17–18 ára

Í söfnum Orðabókarinnar er hins vegar að finna eldri dæmi þar sem orðið unglingur er haft um fólk yngra en 13 ára:
  • var hún munaðarlaus tíu vetra gamall unglingur (19. öld)
  • unglingur á níunda árinu var vanur að reka [fé af stöðli] (19. öld)
og sömuleiðis þar sem unglingar eru eldri en 18 ára – eða a.m.k. komnir á giftingaraldur:
  • Ef nockr únglíngr kvongar sig gamalli konu, þá seger allt fólk um hann at hann mune bráðum verða innteiknaðr í kokkála töluna (18. öld)
  • hann, sem enn þá var ekki annað en unglingur, tæplega þrítugur (upph. 20. aldar)
Af þessu virðist helst mega ráða að á okkar dögum sé orðið unglingur haft um afmarkaðri aldurshóp en áður var.

Um uppruna orðsins unglingur er þetta helst að segja: Venjulega er talið að norrænu málin hafi fengið orðið að láni úr þýsku (jüngling < mhþ. jongelinc) og er eldri mynd orðsins í norrænu ynglingr. Sú mynd orðsins kemur m.a. fyrir í Karlamagnússögu (reyndar í ungu handriti) og Oddur Gottskálksson, sá sem fyrstur þýddi Nýja testamentið á íslensku (1540), kallar sjálfan sig „ónýtan yngling“ í formála að Opinberunarbókinni. Yngstu dæmi Orðabókarinnar um orðmyndina ynglingur eru frá síðari hluta 19. aldar, eftir það er unglingurinn allsráðandi.

Aðalsteinn Eyþórsson
mars 2002