urmull

Nafnorðið urmull merkir tvennt í nútímamáli:
 1. aragrúi, mikill fjöldi
 2. leifar, minjar um e-ð (oft notað með neitun: ekki/enginn urmull)
Dæmi um fyrrnefndu merkinguna eru t.d.
 • í bökkum við Þverá nálægt Neðranesi er mesti urmull af smáskeljum
 • Bókina prýðir urmull mynda, sem margar hverjar hafa ekki birst áður
og um þá síðari má nefna:
 • ekki fannst urmull af mönnunum né farangri þeirra
 • Ekki dettur mér í hug að það sé urmull af honum Munda undir þessu leiði
Ekki er vitað til að urmull komi fyrir í fornmáli en elsta dæmið í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá 16. öld. Þar er reyndar um að ræða orðmyndina örmull sem tíðkaðist jafnframt urmull a.m.k. fram á miðja 20. öld. Ekki kemur fram neinn munur á merkingu þessara tveggja orðmynda, í orðasafni frá 1705 eru t.d. báðar merkingarnar tilgreindar við örmull (aurmull):

margfiöldi, edur miög lijted, sem næsta eckert er effter af (Jón Helgason 1960:273)

Eitthvað hefur þetta reik á bæði rithætti og merkingu farið í taugarnar á reglusömum málfræðingum á 19. öld, a.m.k. segir Halldór Kr. Friðriksson í Réttritunarreglum sínum (1859:73)

Jeg held rjettast, að rita örmull, þegar það merkir leifar, en urmull, er það merkir fjöldi

E.t.v. hafa fleiri verið sama sinnis, a.m.k. merkir örmull oftar 'leifar' en 'fjölda' í dæmum ritmálssafns Orðabókar Háskólans.

Enn er ógetið tveggja orðmynda af sama meiði, þ.e. örmul og örmol, hvorttveggja fleirtöluorð í hvorugkyni.
 • Aldrei sáust nokkur örmul eftir af kænunni
 • urðu menn einskis vísari um það, hvar stúlkan væri niður komin, með því engin örmol sáust
Í ritmálssafni eru dæmi um þessar myndir frá 17. öld og fram á þá 20., oftast í merkingunni 'leifar' en þó kemur hin merkingin fyrir.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir að upphafleg merking orðsins sé 'mylsna, smábrot, smælki' og séu báðar merkingarnar af því leiddar. Þar segir líka að orðmyndin sem nú tíðkast, urmull, sé ummyndun úr örmul, hvorugkynsorðinu sem fyrr var nefnt, og sé það leitt af frumgermanskri sögn *uzmuljan sem á að hafa merkt 'mylja í smátt'. Sú forna sögn mun enn eiga sér beinan afkomanda í þýskum mállýskum: ermüllen.

Seinni parturinn -mul(l) í urmull á því skylt við orð eins og mylja, möl og fleira þessháttar, en fyrri hlutinn ur-/ör- er forskeyti.

Heimildir
 • Söfn Orðabókar Háskólans.
 • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
 • Halldór Kr. Friðriksson. 1859. Íslenzkar rjettritunarreglur. Reykjavík.
 • Jón Helgason. 1960. Fem islandske ordsamlinger fra 18. og 19. århundrede. Bibliotheca Aranmagnæana XX: Opuscula I, bls. 271-299.

Aðalsteinn Eyþórsson