útrás

Fátt þykir meira fréttaefni um þessar mundir en sú viðleitni íslenskra fyrirtækja að hasla sér völl á erlendum vettvangi, koma framleiðslu sinni og starfsemi þar á framfæri og auka umsvif sín með fjárfestingum í erlendri og alþjóðlegri atvinnustarfsemi. Um allt þetta framtak í víðum skilningi er nú æ oftar haft orðið útrás. Íslenskir bankar eru sagðir vera í útrás á erlendum mörkuðum, og talað er um útrás einstakra atvinnugreina og menningarsviða, dægurtónlistar, tískufatahönnunar o.s.frv.

Í Íslenskri orðabók er gert ráð fyrir þremur merkingartilbrigðum orðsins útrás. Í fyrsta lagi er það haft um ós eða mynni ár, afrennsli vatns eða útstreymi lofts. Önnur merking orðsins fær skýringuna "framrás úr vígi, það að ráðast fram úr vígi". Loks er sú merking sem gerð er grein fyrir með samheitunum "farvegur" og "framrás" og vísað er til með dæmasamböndunum fá útrás / fá útrás fyrir reiði sína / útrás íslenskra fyrirtækja.

Fyrstnefnda merkingin hefur greinilega sérstöðu og um hana eru skýr dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar frá ýmsum tímum:
 • flýtur Holtsós yfir slægjur, nær fyrir hans útrás lengi teppist. (frá upphafi 18. aldar)
 • Enginn þessara lækja hafa, svo menn viti, breytt farvegi sínum, nema ef vera skyldi Högnalækur útrás sinni í Hagaleiru. (frá síðari hluta 19. aldar)
 • Í hverri búð á að vera útrás fyrir óhreint loft. (frá miðri 20. öld)
Óljósara er hvernig greina beri hin merkingartilbrigðin og hvernig sambandi þeirra sé háttað. Um merkinguna "framrás úr vígi" eru m.a. þessi dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar:
 • Vjer hlaupum hjer yfir allar smá orrustur og útrásir borgarmanna. (frá miðri 19. öld)
 • Þeir gátu því undir engum kringumstæðum bundið sterkan herskipaflota til varnar í ímyndaðri útrás. (frá miðri 20. öld)
Í fréttum og frásögnum Morgunblaðsins af vígstöðvum heimsstyrjaldarinnar fyrri er þess allvíða getið að herir og hersveitir hafi gert útrás:
 • Rússar tilkynna að setuliðið í Königsberg hafi gert útrás, en hún mistekist. (Mbl. 5. sept. 1914)
 • Bretar gerðu sigursæla útrás frá Seres á Saloniki-vígstöðvunum. (Mbl. 23. okt. 1917)
Sama merking orðsins kemur einnig fram í öðrum samböndum:
 • Í kvöld reyndu óvinirnir útrás frá Dixmunde, en voru hraktir aftur. (Mbl. 14. nóv. 1914)
 • Þessi viðureign líktist mest útrás, því að stöðvar þær, sem náðust, voru eigi víggirtar. (Mbl. 17. sept. 1916)
Orðið er einnig haft í lýsingum á hernaðarátökum í heimsstyrjöldinni síðari:
 • Pólskar hersveitir í Gdynia gerðu í dag útrás gegn Danzig-hernum og tóku nokkra stríðsfanga, auk annars herfangs. (Mbl. 7. sept. 1939)
Sú merking orðsins sem hér kemur fram gæti fengið eftirfarandi skilgreiningu:

skipuleg aðgerð hers eða hersveitar, sem búið hefur um sig í vígi, í þeim tilgangi að ná yfirráðum á aðliggjandi landsvæði með vopnavaldi

Orðið útrás er ekki lengur tengt fréttum og frásögnum af vígvöllum heimsins, enda er hertæknin breytt og hernaðarátökum lýst úr meiri fjarlægð en áður. En orðið hefur haslað sér völl á nýjum vettvangi og tekið með sér vísun sína til áræðis og hugdirfsku og einbeittra áforma um að skapa sér rými til athafna.

Heimildir
 • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. útgáfa, 2002. Edda, Reykjavík.
 • Morgunblaðið. http://www.timarit.is