vanræksla

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Orðið vanræksla hefur hljómað hátt að undanförnu í umræðunni um orsakir efnahagshrunsins. Því bregður m.a. alloft fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, eins og sjá má ef leitað er í texta skýrslunnar í Íslensku textasafni.

Merking orðsins er skýrð þannig í Íslenskri orðabók:

  • það að rækja e-ð ekki, láta e-ð ógert, vanhirða, hirðuleysi

Orðið er augljóslega leitt af sögninni vanrækja, sem er gamalgróin í málinu. Nafnorðið í þessari mynd virðist hins vegar fyrst koma fram seint á 19. öld því frá þeim tíma eru elstu dæmin í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og á vef Landsbókasafnsins, Tímarit.is. Lengi áður gegndi annað orð af sömu rót, vanrækt, sama merkingarhlutverki, eins og sjá má mörg dæmi um í fyrrgreindum söfnum. Það orð virðist þó hafa nokkuð víðari merkingu í tengslum við orðið rækt því það getur auk þess vísað sérstaklega til óræktar og vanhirðu á jörðum og túnum. Þótt vanrækt skjóti upp kollinum í yngri heimildum hefur það ekki haldið velli í lifandi málnotkun og það er ekki tilgreint sem flettiorð í Íslenskri orðabók.

Smellið á myndina til þess að stækka hanaÍ Íslensku orðaneti tengist orðið vanræksla fjölda merkingarskyldra orða í hliðskipuðum orðasamböndum. Þessi fjölbreyttu tengsl koma vel fram á meðfylgjandi mynd.

 

Úr Íslensku orðaneti. Smellið á myndina til að stækka hana.


Leiðin að merkingarsviðinu vanræksla, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „vanrækja <starfið>“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • merkingarlega náskyldar flettur með samstæðri setningargerð undir heitinu samheiti/skyldheiti, t.d. "afrækja <námið>"
  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér "vanrækja <starfið>". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "vera hirðulaus", "vera tómlátur", "fresta <verkinu, samkomunni> " o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
mars 2010