varamaður

Orðið varamaður hefur tvenns konar merkingu í íslensku svo sem sjá má t.d. í Orðabók Menningarsjóðs (OM):

1 sá sem er til vara fyrir e-n: v. e-s.
2 varkár maður.

Fyrri merkingin kemur fyrst fyrir um miðja 18. öld og er algeng nú og líklega hið fyrsta sem flestum kemur í hug þegar orðið er nefnt. Síðari merkingin, `varkár maður' er að líkindum enn eldri en sú fyrri því að dæmi eru um hana frá ofanverðri 17. öld.

Annars er orðið í þessari merkingu einkum haft í málshætti eða orðskviði: Verður á fyrir varamönnunum líka. Dæmi um þetta er í málháttasafni Guðmundar Jónssonar sem prentað var 1830 en er samsteypa úr eldri málsháttasöfnum frá 18. öld. Fleiri dæmi eru frá 18. öld því að orðið kemur einnig fyrir í orðabók Jóns úr Grunnavík; varamaður þýðir hann `varkár maður'. Hann tilfærir líka máltækið, verður á varamönnum, `varkárum mönnum getur einnig orðið á'. Þýðingar Jóns eru af íslensku á latínu en lat. íslenskuð hér. En elsta dæmið í fórum Orðabókar Háskólans um máltækið, verður á fyrir varamönnunum, er í viðlagi sem varðveitt er í 17. aldar handriti en gæti verið miklu eldra, allt frá miðöldum. Viðlagið hljóðar svo:

Bjó til Lybik bóndi hreinn
sá blíða átti frúna;
prestur girntist auðgrund einn
og annar líka dándusveinn.
Verður á fyrir varamönnunum núna. (JSamsKD II, 205)

Ekki er ólíklegt að máltækið, verður á fyrir varamönnunum, sé runnið frá þessu viðlagi og lagað lítils háttar í munni. Það er ekki óþekkt að hnyttið eða meitlað vísuorð slitni úr upprunatengslum sínum og verði að almennu orðtaki, spakmæli eða málshætti.

Orðtækið hefur verið vel kunnugt í mæltu máli til skamms tíma. Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkur dæmi um það frá heimildarmönnum víðs vegar um landið. T.d. er haft eftir vestfirskum heimildarmanni: Það verður oft á varamanninum, eða varamönnunum, og er haft um þá sem harðast dæma eitthvað tiltekið hjá öðrum en lenda svo í því sama sjálfir. Þingeyskir og austfirskir heimildarmenn hafa þetta svona: Það verður á fyrir varamönnunum, við svipaðar aðstæður og Vestfirðingar en bæta við að það sé einnig haft um þá sem vissir þykja í sinni sök en skjátlast þó á stundum og er þá sagt eins og í hlakkandi hæðnistón.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • OM: Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • JSamsKD: Kvæði og dansleikir. Jón Samsonarson gaf út. I–II. Reykjavík MCMLXIV.
  • Orðabók Grunnavíkur-Jóns, Lexicon Islandicum ... . Uppskrift á seðla varðveitt á vinnustofu Orðabókar Háskólans.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans