veira og vírus

Orðin veira og vírus eru samheiti og vísa bæði til örsmárra einda sem eru sníklar í frumum og valda ýmsum sjúkdómum. Um bæði orðin má finna dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
 • er því lýst, hverja möguleika líkaminn hefur til þess að verjast utanaðkomandi lífverum, svo sem bakteríum og veirum.
 • Veirur eru örsmáar og hvorki lifandi eða dauðar.
 • Flestir þeir líffræðingar, sem fást við erfðafræði, telja hin svonefndu kon (gen) vera hina minnstu lifandi einingu, en álíta vírusana vera einskonar flökkukon, fyrirrennara sjálfra frumnanna.
 • Einhver hefur stungið upp á því að kalla vírusana eitrur á íslenzku.
 • Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus.
Á síðustu árum hefur merking beggja víkkað út og þau eru nú einnig notuð um tölvuforrit sem dreift er til að valda truflunum eða skemmdum í annarra manna tölvum eins og finna má dæmi um á vefnum.
 • Veira getur valdið skaða á vélbúnaði, hugbúnaði eða gögnum.
 • Nýr vírus er að hreiðra um sig á netinu um þessar mundir.
Orðin eru tiltölulega ung í íslensku. Elstu dæmi Orðabókarinnar um vírus eru frá því um 1945 og í upphafi bregður því einnig fyrir sem hvorugkynsorði.
 • Við vonuðumst til að þetta virus reyndist ekki lífshættulegt. (Ritmálssafn OH)
Dæmi um veira yngri, þau elstu frá því um 1955. Það var Vilmundur Jónsson, landlæknir, sem stakk upp á að nota það orð í merkingunni 'vírus' og hann skrifaði af því tilefni fræga grein, Vörn fyrir veiru (1955). Aðrar uppástungur um nýyrði voru t.d. víra og eitra (sbr. dæmi hér að ofan). Orðið veira var til í eldri merkingu, 'feyskinn, fúinn blettur í tré; brestur, sprunga', en hefur tæplega verið algengt, t.d. eru engin dæmi um þá merkingu í ritmálssafni OH.

Þessi tvö orð eru ágætt dæmi um að tökuorð (vírus) og nýyrði (veira) með sömu merkingu lifi hlið við hlið í málinu.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989
 • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
 • Með hug og orði. Af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis. (Fyrra bindi) Reykjavík: Iðunn 1985.
Ásta Svavarsdóttir
nóvember 2003