ver

Á undanförnum vikumog mánuðum hefur hvorugkynsorðið ver oft heyrst í fréttum eða sést í dagblöðum, einkum í samsetningunni Þjórsárver. Í grennd við Þjórsárver eru fleiri örnefni þar sem ver er síðari liður, t.d. Illaver, Múlaver, Eyvindarver, Þúfuver og Tjarnaver. Þarna er ver í merkingunni 'gróðurblettur í óbyggðum, votlend grasi vaxin kvos'.

En ver hefur einnig fleiri merkingar. Það getur þýtt 'veiðistöð, fiskiver'. Hér áður fyrr var talað um að fara í verið þegar menn voru sendir af bæjum til að róa á vertíð.

Þá er orðið notað um varpstað fugla, þ.e. eggver, dúnver, álftaver.

Ver er líka notað um 'hlífðarklæði', t.d. í orðunum koddaver, sængurver, reiðver.

Sjaldgæfari eru merkingin 'haf, sjór' sem fyrir hefur í skáldskap í eldra máli, merkingin 'eiginmaður, karlmaður' og merkingin 'kjölrák, árafar' sem virðist staðbundin.

Ásgeir Blöndal Magnússon telur líklegast að ver notað um mýrlent svæði sé sama orð og ver í merkingunni 'verstöð, fiskiver' og ver í merkingunni 'varpsvæði fugla, eggver' og þá skylt sögninni verja, þ.e. 'varnarstaður'. Þó telur hann ekki útilokað að orðið sé af öðrum toga og að upphaflega merkingin sé 'votlent svæði' (1989:1121). Sú hugmynd fær góðan stuðning af árheitum í nágrannalöndum eins og t.d. Varma og Verma í Noregi (með -m-rótarauka), Wern í Þýskalandi (með -n-rótarauka) og ýmsum fleiri.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.

september 2002