verð

Nafnorðið verð 'gjald, það sem eitthvað kostar' er almennt eingöngu notað í eintölu en nokkuð ber þó á því að orðið sé haft í fleirtölu, ekki síst í auglýsingum. Oft er amast við því að fleirtala sé notuð en það er þó ekki alveg nýtt að svo sé eins og eftirfarandi dæmi úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans sýna:
 • hvað hann falaði af öðrum og fékk, borgaði hann jafnvel tvennum verðum. (18. öld)
 • hversu mjög framleiðsla félagsins skaraði fram úr [ [...]] sést á samanburði á verðunum. (Ægir 1908)
 • er þar með seðlabönkunum (ríkinu) [ [...]] veittur réttur til að ákveða öll verð á Norðurlöndum. (Skírnir 1916)
 • Veitum hagkvæm verð, ef um meira magn er að ræða. (Tímarit verkfræðinga 1965)
Í íslensku eru allnokkur nafnorð sem að jafnaði eru aðeins notuð í eintölu. Þetta eru fyrst og fremst orð sem vísa til einhvers sem ekki er teljanlegt, t.d. efnis- og safnheiti eins og kaffi, sykur, silki, mjöl o.fl. og orð sem vísa til huglægra eða óáþreifanlegara fyrirbæra eins og námvinna og sólskin. Þá eru dæmi um orð sem geta haft fleiri en eina merkingu og eru einungis notuð í fleirtölu í tiltekinni merkingu en annars ekki. Þar má nefna orðið vatn sem eingöngu er notað í eintölu þegar það er efnisheiti en þegar merkingin er 'stöðuvatn' getur það verið í eintölu eða fleirtölu eftir atvikum.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru gömul dæmi þar sem orðið verð merkir 'gildi'  eða 'stærð' og er það þá eðlilega haft í fleirtölu jafnt sem eintölu:
 • Af líkindum [ [...]] telianda brots og nefnanda má þá ráda gilldi þess edr verd. (1780; eintala)
 • En af því, sem vér höfum sagt um hinar ýmislegu rætur sömu stærða, þá leiðir það, að stundum kunnu að vera mismörg verð (valor; valores, þegar fleiri eru) hægra megin og vinstra við jafnaðarmerkið. (1865; fleirtala)
 • a er eitt af hinum 4 verðum, sem liggja í V4b. (1865; fleirtala)
Vaxandi fjöldi dæma um orðið verð í fleirtölu virðist bendir til þess að orðið sé í vaxandi mæli notað í hlutlægri merkingu, að í ákveðnu samhengi merki það fremur 'upphæð, fjárhæð' (sem sett er upp fyrir vörur eða þjónustu) en 'gjald, endurgjald'. Þessa sér þá stað í dæmum eins og þeim sem hér fara á eftir:
 • það var um tvö eða þrjú verð að ræða. (Ritmálssafn OH; 1967)
 • Hugsum okkur nú að í stað þess að afgreiðslustúlkan skrifi verðin á blað hafi hún búðarkassa til að skrá tölurnar á. (Ritmálssafn OH; 1977)
 • og [::er] því ekki unnt að tilgreina rúmmetersverð í þessum verkum sambærileg við önnur verð í töflunni. (Ritmálssafn OH; 1980)
 • Góð þjónusta og góð verð eru lykillinn að því, ásamt því að bjóða upp á gæða vöru. (Vefsíða)
 • Sum verðin þarna eru bara fáránleg. (Spjallþráður á netinu)
Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók. 3. útgáfa. Edda 2002.
 • Veraldarvefurinn