verkefni

Í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi (1983) er orðið verkefni tilgreint í tveimur merkingum. Í fyrsta lagi merkir það `viðfangsefni, e-ð til að vinna, leysa af höndum' en í öðru lagi `dæmi til að reikna, texti (textasafn) til að þýða eða annað tiltekið afmarkað viðfangsefni til þjálfunar'. Við síðari merkinguna, `dæmi til að reikna, ... viðfangsefni til þjálfunar', er merkið U með hring utan um sem táknar að um sé að ræða merkingu eða orðanotkun í uppeldisfræði og skólamálum enda kannast margir við dæmi og stíla úr skólagöngu sinni. Þessi skýring er óbreytt í Íslenskri orðabók (2002). Þrátt fyrir þessa skiptingu orðskýringarinnar í tvo liði er um sama grundvallarþátt merkingar að ræða, þ.e. viðfangs- eða úrlausnarefni sem inna ber af höndum.

Orðið verkefni kemur nokkrum sinnum fyrir í fornu máli en prentaðar orðabækur yfir fornmálið hafa einnig orðmyndina verkaefni í sömu merkingu og verkefni `viðfangefni, starf sem einhverjum er falið á hendur'.

Á síðari tímum kemur orðið verkefni fyrir snemma á 18. öld, nánar tiltekið í Vídalínspostillu eftir Jón biskup Vídalín og reyndar enn öðru verki eftir hann (sjá Ritmálssafn Orðabókar Háskólans). Ef rýnt er í þessi dæmi verður ekki betur séð en merkingin sé `efni, efniviður, sem e-ð er unnið, gert úr'. Þetta verður greinilegt í dæmi úr trúarlegu riti (hugvekjum) frá miðri 18. öld (stafsetning samræmd):
  • fáum vér aumir menn að dragast með þungbæran dauðans líkama ... hvör eftir hennar [þ.e. sálarinnar] viðskilnað fær að snúast í sitt fyrra verkefni, því hann er mold.
  • Öll verkefni og annað til kirkjunnar byggingar (frá síðasta þriðjungi 18. aldar).
Þessi merking orðsins er algeng í ritum a.m.k. fram undir lok 19. aldar og jafnvel lengur:
  • sólaleður og alls konar verkefni fyrir söðlasmiði og skósmiði (dæmi úr blaði frá 1894).
Merkingin `viðfangsefni, úrlausnarefni' kemur fyrir í reikningsbók frá síðasta þriðjungi 18. aldar:
  • Nokkur verkefni og dæmi, sem úrleyst verða með ... líkingum.
Frá síðari hluta 19. aldar eru eftirfarandi dæmi:
  • Problema (verkefni) heimtar eitthvað framkvæmt, sem ei er mögulegt nema með fleirum atvikum, er þarf að kenna og sanna.
  • leysti nokkur verkefni í tölvísi.
Þessi merking verður æ algengari er á líður og líklega er efniviðar-merkingin að mestu horfin nú.

Heimildir
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík: Edda 2002.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans