versla

Í viðskiptasamfélagi nútímans skipar sögnin versla og sú athöfn sem í henni felst mikilvægan sess. Notkun sagnarinnar tengist tvenns konar hlutverki þess sem verslar. Annars vegar er sá sem býður fram vöru eða varning og er í hlutverki seljanda þegar viðskipti fara fram. Hins vegar er sá sem leitar kaupa á vörunni og er þar með í hlutverki kaupanda.

Lítið fer fyrir sögninni versla í rituðum heimildum fyrr en komið er fram á 19. öld þótt hennar verði vart í eldri ritum, allt frá 15. öld a.m.k. Lengi framan af virðist sögnin einkum vera bundin fyrrnefnda hlutverkinu, og er þá m.a. tekið svo til orða að menn versli vöru sinni eða varningi. Í öðrum samböndum getur sögnin átt við vöruskipti þeirra sem í hlut eiga, getið er um stúlkur sem versla hári sínu í peninga og á öðrum stað er fiski verslað á móti smjöri. Þessi notkun kemur skýrt fram í dæmum um sögnina versla í ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Notkun sagnarinnar með nafnorði í þágufalli (um það sem boðið er til sölu) er ókunnugleg í nútímamáli, þótt kaupmenn versli vissulega enn á Laugaveginum og þar sé verslað með margvíslegan varning. En fleira hefur breyst í hegðun sagnarinnar og í því sambandi er mikilvægt að hugsa til þeirra breytinga sem orðið hafa á öllum verslunarháttum á síðustu áratugum og reyndar einnig á viðhorfum manna til verslunar.

Notkun sagnarinnar versla endurspeglar nú æ skýrar þá hugmynd að neytandinn, sá sem falast eftir vörunni, gegni aðalhlutverki, athöfnin og viðfangsefnið sé hans fremur en þess sem býður vöruna eða varan er keypt af. Um leið og verslun og verslunarrekstur hefur fengið ópersónulegra yfirbragð hafa verslunarferðir orðið fyrirferðarmeira og margþættara viðfangsefni en áður, sem að nokkru leyti felur í sér dægradvöl og afþreyingu. Þessi hugmynd birtist m.a. skýrt í auglýsingum þar sem fólk er hvatt til að versla sér til ánægju og skemmtunar.

Athyglisvert er að þessi áhersla á hlutverk neytandans hefur haft áhrif á setningarlega stöðu sagnarinnar. Á sama hátt og meginmerkingin í eldra máli kallaði á þágufallsandlag um það sem boðið er fram (versla vöru sinni/varningnum) bregður nú æ oftar fyrir þolfallsandlagi um það sem menn fá eða afla sér, þeim fjölgar sem versla hlutabréf, aðrir leggja leið sína í verslunarmiðstöðvar til að versla (sér) föt. Dæmi af þessu tagi reynast vera fyrirferðarmikil þegar litið er á notkun sagnarinnar á netinu.

Þær breytingar sem orðið hafa á notkunarháttum sagnarinnar versla eru gott dæmi um það hvernig þjóðfélagslegar hræringar og ný viðhorf geta mótað og umskapað merkingu orða, oft á býsna hljóðlátan hátt.