vísdómstönn

Endajaxlarnir eru stundum kallaðir vísdómstennur. Ástæðan er sennilega sú að þessar tennur koma venjulega ekki upp fyrr en á fullorðinsaldri, þ.e.a.s. þegar fólk er komið til vits og ára. Um þennan skilning vitnar eftirfarandi dæmi sem finna má í ritmálssafni Orðabókar Háskólans (undir flettiorðinu endajaxl):
  • Endajaxla taka menn allajafna svo seint, að þeir hafa einnig verið nefndir ,,vísdómstennur``, líklega af því, að þá sé fullum andlegum þroska náð, er þær koma.
Skáldið Jóhannes úr Kötlum leikur sér að þessum tengslum þegar hann yrkir í Draumkvæði sem birtist fyrst í ljóðabókinni Óljóð 1962:
  • endajaxlar mínir kveljast af vísdómi.
Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er að finna nokkur dæmi um orðið vísdómstönn, það elsta frá upphafi 19. aldar:
  • endajaxlar edur vísdómstennur. (1803)
  • og eru þær [::tennurnar] vanalegast allar komnar um 14. veturinn, nema 5. jaxlinn (vísdómstönnin), sem eigi kemur fyr en eptir tvítugsaldurinn. (1879)
  • Óverðskuldaður vinningur dregur úr hverjum óreyndum manni eina vísdómstönn. (1912)
  • er allt útlit fyrir, að aftasti jaxlinn eða vísdómstönnin sé að verða úrtelt hjá hinum siðaðri mannflokkum. (1945)
Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Jóhannes úr Kötlum. Ljóðasafn VII. Sjögdægra - Óljóð. Heimskringla 1976.
Ólöf Margrét Snorradóttir
/ Ásta Svavarsdóttir