yfirhalning

Í Íslenskri orðabók (2007) segir um nafnorðið yfirhalning:

yfir|haln|ing -ar KVK
óformlegt
• lúskrun, refsing, ádrepa, skammir ◊ fékk yfirhalningu hjá foreldrunum /  gaf honum aldeilis yfirhalningu

Dæmi um þessa merkingu má sjá í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans:

 • til að benda á að það væru fleiri en einhverjir fúskarar sem gætu átt von á yfirhalningu. (1987)
 • ég fékk yfirhalningu hjá vegabréfaskoðuninni í New York næst þegar ég skrapp til Bandaríkjanna. (1991)

Dæmin í ritmálssafninu eru tiltölulega ung en auðvelt er að finna talsvert eldri dæmi þótt orðið virðist ekki koma fyrir fyrr en líður á 20. öldina, a.m.k. á prenti:

 • sá [...] merki pyntinganna á líkama Yamauchi. Bandarísku yfirvöldin hafa viðurkennt, að Yamauchi hafi fengið „litilsháttar yfirhalningu“ (Þjóðviljinn 1948)
 • hann hafði gefið Hermanni og Eysteini duglega yfirhalningu. (Alþýðublaðið 1959)

Í Íslenskri orðabók er einungis gerð grein fyrir samböndunum fá yfirhalningu `fá skammir, átölur´ og gefa/veita e-m yfirhalningu `skamma e-n´ sem bæði eru vel þekkt úr daglegu máli og sjá má dæmi um að ofan.

Þar með eru þó ekki öll kurl komin til grafar eins og fljótlegt er að ganga úr skugga um með leit á vefnum:

 • Garðyrkjumaðurinn [...] sagði um leið að garðurinn þarfnaðist raunverul[egrar] „yfirhalningar" til þess að komast í topp stand. (Mánudagsblaðið 1955)
 • eftir að snjóbíllinn hafði fengið hæfilega yfirhalningu á verkstæðinu (Tíminn 1973)
 • sum húsin voru orðin illa farin, svo ekki þýddi annað en gagnger yfirhalning á þeim. (Alþýðublaðið 1981)
 • Allsherjar yfirhalning á veitingastaðnum Við Pollinn (Fyrirsögn á Vísir.is 2010)

Þarna er merkingin önnur en í fyrri dæmum, eiginlega `það að taka e-ð í gegn´, þ.e.a.s. að fara vandlega yfir ástand þess og gera við allt sem þarfnast endurbóta. Merkingarmunurinn endurspeglast m.a. í því að þarna er það ekki fólk sem fær yfirhalningu heldur einkum byggingar, tæki og tól. Þessi merking er ekki tilgreind í Íslenskri orðabók en ef marka má almenna leit á vefnum virðist hún vera a.m.k. jafn algeng og hin í daglegu máli. Um hana var fjallað í pistli í Morgunblaðinu 2007 þar sem bent var á að hana vantaði í orðabókinu og þar eru tilgreind fleiri dæmi um slíka notkun.

Sögnin yfirhala og lýsingarorðið yfirhalaður koma einnig fyrir í íslensku, einkum í merkingunni `yfirfara/yfirfarinn, taka/tekinn í gegn´:

 • Þótt hlé væri á veiðum, léku menn sér ekki allar stundir, því að margt þurfti að gera. Fiskurinn var umstaflaður, lóðir settar upp og þær gömlu „yfirhalaðar", eins og sjómenn orða það (Ægir 1939)
 • unnu menn við að lagfæra ýmislegt og yfirhala trollin sem kallað er, gera við þau svo þau yrðu í góðu standi fyrir næsta túr. (Þjóðviljinn 1954)

Þessi dæmi og mörg önnur, einkum þau eldri, benda til þess að notkun orðsins eigi sér rætur í sjómannamáli og hafi breiðst þaðan út til annarra notkunarsviða.

Orðið yfirhalning á sér rætur í danska orðinu overhaling í sömu merkingu (1. `ávítur, skammir´; 2. `allsherjaryfirferð, klössun´) en það er m.a. notað í orðasambandinu give én en overhaling `hundskamma e-n´ (sjá t.d. Dansk-íslenska orðabók 1992) sem svarar beint til íslenska sambandsins gefa/veita e-m yfirhalningu. Danska nafnorðið tengist sögninni overhale `aka fram úr´ enda getur það einnig haft merkinguna `framúrakstur´ en sú merking tíðkast ekki í íslensku að því er best verður séð. Þessi orð eru rakin til hollenska orðsins overhalen sem upprunalega merkti `að draga á hliðina´ og var notað um skip sem þurfti að lagfæra og til miðlágþýsku sagnarinnar overhalen `skamma, setja ofan í við e-n´ en þau eru líka skyld ensku sögninni overhaul `taka í gegn´.

Heimildir

 • DDO = Den danske orbog. 2005. Kaupmannahöfn: DSL/Gyldendal.
 • Dönsk-íslensk orðabók. 1992. Ritstj. Hrefna Arnalds, Ingibjörg Johannesen og Halldóra Jónsdóttir. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
 • Íslensk orðabók. 2007. Ritstjóri Mörður Árnason. 4. útgáfa. Reykjavík: Edda.
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans: http://www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_gagnasafn_ritmal
 • Tímarit.is: http://timarit.is.

Ásta Svavarsdóttir
júní 2012